Vinsælustu hlaðvarpsþættir Karlmennskunnar 2021

Rétt rúmlega einn þáttur kom út að meðaltali í hverri viku á árinu 2021 og eins og gengur, voru sumir þættir vinsælli en aðrir. Án þess að hafa lagst í djúpa greiningarvinnu virðist nokkuð augljóst að það sem fólk vill hlusta á er reynsla og upplifun fólks, frekar en greiningar, skýringar eða álit sérfræðinga. Kemur kannski ekki á óvart en eru ákveðin vonbrigði, því ég hef talað við svo marga klára sérfræðinga sem hafa miðlað dýrmætri þekkingu sinni.

Markmið hlaðvarpsins verður þó áfram að varpa ljósi á misrétti, skýra birtingamyndir karlmennsku, greina orðræðu og fleira sem tengist jafnrétti í víðu samhengi. Miðað við viðbrögðin er þó spurning hvort meiri þungi ætti að vera á fólk með reynslu sem það er tilbúið til að opna sig með.

Eftirfarandi eru vinsælustu hlaðvarpsþættir Karlmennskunnar árið 2021.

#43 „Kvenlegir menn munu ekki erfa guðs ríki” - Birgir Fannar

Grímulaus kvenfyrirlitning, þolendaskömmun og djúp ást á karlmanninum sem höfuð fjölskyldunnar einkenndi vinsælasta viðmælanda síðasta árs. Vinsældir hans fólust sennilega frekar í hve hressilega fólki blöskraði frekar en eitthvað annað.

#9 Mental load: Hjónin Hulda og Þorsteinn

Þáttur frá 2020 varð næstvinsælastur á árinu en þarna má segja að ég hafi berskjaldað sjálfan mig og hversu þunga byrði Hulda, konan mín, hefur þurft að bera á heimilis- og fjölskylduhaldinu.

#60 Hreinsunareldur sem brenndi þolendur - Þóra Arnórsdóttir ritstjóri Kveiks

Vægast sagt umdeildur Kveiks-þáttur með einhliða frásögn manns sem sent hafði myndir af typpinu á sér til ungra stúlkna og gagnrýnislaus umfjöllun um „slaufun” samfélagsins á honum, var hlandblaut tuska í andlit þolenda. Þóra var beðin um skýringar og endurlit á umfjöllunina sem mörgum þótti meingölluð.

#46 „Ég er smá homophobic sjálfur” - Bassi Maraj

Raunveruleikaþátta- og poppstjarnan Bassi Maraj spjallaði um allt og ekkert í einum kaótískasta hlaðvarpsþætti Karlmennskunnar.

#30 „Bros before hoes” - Einar Ómars og Sólborg Guðbrands

Vinir mínir, Einar Ómars og Sólborg Guðbrands, komu í spjall þegar önnur bylgja metoo var að rísa. Einlægt spjall um mörk, klám, forréttindi og karlakúltúr.

#49 „Það er búið að þagga niður milljón svona mál” - Pétur Marteinsson fyrrverandi atvinnu- og landsliðsmaður í knattspyrnu

KSÍ málið var í hæstu hæðum og mikil umræða um klefamenningu og fótboltamenn sem beita ofbeldi. Pétur Marteins fyrrverandi landsliðsmaður og atvinnumaður í fótbolta veitti innsýn í ferilinn sinn og mat stöðuna sem var þá í gangi.