Jákvæð karlmennska

Herdill

Karlar og drengir geta tileinkað sér jákvæða karlmennsku og þar með hafnað ráðandi karlmennskuhugmyndum og afleiðingum þeirra. Jákvæð karlmennska grundvallast á virðingu, mennsku og jafnrétti og lærist í gegnum félagsmótun líkt og önnur karlmennska. Jákvæð karlmennska felur í sér ábyrg viðhorf, lífsgildi og hegðun meðal drengja og karla sem hefur jákvæðar afleiðingar fyrir þá sjálfa og umhverfið sem þeir eru hluti af [Masculinity in the Midst of Mindfulness: Exploring the Gendered Experiences of At-risk Adolescent Boys, 2018]. Með öðrum orðum vinnur jákvæð karlmennska gegn neikvæðum áhrifum samfélagslega ráðandi staðalímynda um karla og drengi. 

Styngvi

Jákvæð karlmennska er því sú tegund karlmennsku sem stuðlar að jafnrétti milli kynja, karlmennsku og kvenleika, og í raun meiri mennsku. Jákvæð karlmennska ber ekki með sér kynjuð valdatengsl feðraveldis karlmennsku og er því styðjandi við jafnrétti. Slík tegund karlmennsku getur haft víðtæk jákvæð áhrif í samfélagslegu samhengi [Messerschmidt, J. W., Masculinities and Femicide, 2017].

 

 

ÁTAKIÐ 2021

Dauduart

Karlmennskan ásamt námsbraut í kynjafræði í Háskóla Íslands, Píeta, Stígamótum og UN Women á Íslandi með stuðningi Jafnréttissjóðs Íslands stóðu að átaki um jákvæða karlmennsku í mars 2021. Markmið átaksins var að hreyfa við ráðandi karlmennskuhugmyndum og styðja við jafnrétti með því að varpa ljósi á viðhorf, hegðun og breytni sem telst til jákvæðrar karlmennsku.

Átakið byggði á einföldum, leiðbeinandi og skýrum skilaboðum sem eru lýsandi fyrir jákvæða karlmennsku. Áherslan var annars vegar á að normalísera tilfinningar drengja og karla og hins vegar á upplýsta afstöðu gegn ofbeldi, staðalmyndum og misrétti. Við val á innihaldi átaksins var m.a. horft til þemagreiningar á frásögnum drengja og karla undir myllumerkinu #karlmennskan á Twitter frá árinu 2018 og því sem aðstandendur átaksins telja aðkallandi að ávarpa og tala inn í að fenginni reynslu á vettvangi og rannsóknum.

Grafík átaksins var unnin af Bergþóru Jónsdóttur. Teikningar eftir Daudurart (Auður Ómarsdóttir), Herdill (Herdís Þorvaldsdóttir) og Styngvi (Stefán Yngvi Pétursson).

Átakið fór fram á Instagram þar sem birtust 21 fræðslupóstur, en auk þess voru pósterar birtir á billboard skjám í Reykjavík.

 

RÁÐANDI KARLMENNSKA

Ráðandi karlmennska (e. hegemonic masculinity) er sú tegund karlmennsku sem nýtur menningarlegra yfirburða, veitir félagsleg völd og er því eftirsóknaverðust en alls ekki algengust [1]. Flestir karlar vilja eða þurfa þó að miða sig við þá ímynd sem fylgir hinni ráðandi karlmennsku [2]. Ráðandi karlmennska er ekki föst stærð heldur breytist hún yfir tíma og á milli menningarsamfélaga. Þess vegna er ekki endilega sama ráðandi karlmennskan á ólíkum stöðum á sama tíma. Raunar er hin ráðandi karlmennska stöðugt berskjölduð fyrir yfirburðastöðu sinni í ljósi tengsla hennar við völd og yfirráð [3]. Takist hinni ráðandi karlmennsku ekki að leiða til lykta ágreining sem skapast vegna kynjaðra valdatengsla verður staða hennar veik fyrir gagnrýni og mun þurfa að breytast eða aðlagast breytingum [3]. 

BRAUÐfinal.png

Samsektarkarlmennska er sú tegund karlmennsku þar sem karlar geta notið góðs af yfirburðum hinnar ráðandi karlmennsku. Þeir karlar sem hampa, líta upp til eða hafna ekki yfirburðastöðu hinnar ráðandi karlmennsku geta því notið góðs af stigveldi karlmennskuhugmynda. Því má segja að völd og yfirráð leki niður til þeirra karla og drengja sem mótmæla ekki ráðandi karlmennsku eða stigveldi karlmennskuhugmynda.

Gagnrýni á karllægt gildismat og yfirskipun karlmennsku á kvenleika krefur karla til að horfast í augu við karlmennskuhugmyndir sem byggja á stigveldi, aðgreiningu og undirskipun. Hin ráðandi karlmennska á undir högg að sækja í íslensku samfélagi og teikn eru um að frjór jarðvegur sé fyrir jákvæða karlmennsku. Má segja að jákvæð karlmennska standi utan við kenningar um stigveldi karlmennskuhugmynda og byggi ekki á yfirskipun, aðgreiningu og útilokun. 

Heimildir og ítarefni

1 Connell, 1995.Connell, 1995, bls. 77 (Linkur: 

2 Ásta Jóhannsdóttir og Kristín Anna Hjálmarsdóttir, 2011, bls. 5 (linkur: 

3 Connell og Messerschmidt, 2005, bls. 853 (Linkur:



TILFINNINGAR

Tilfinningar og tilfinninganæmi er oftast tengt við konur og kvenleika á meðan agi, skynsemi og rökvísi hafa verið tengd við karla og karlmennsku. Þar sem kvenlegir eiginleikar eru ekki taldir eftirsóknarverðir meðal karla leitast þeir síður við að gefa slíkum eiginleikum gaum og forðast þá, enda byggir karlmennska á andstöðu við kvenleika (Connell, 1995, bls. 68; Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 2004 bls. 73 ). Þetta var áberandi í frásögnum karla á Twitter undir myllymerkinu #karlmennskan þar sem þeir lýstu því að hafa ekki getað tjáð tilfinningar sínar, upplifað að hafa ekki mátt það eða lýstu þjáningum vegna tilfinninga sem þeir höfðu aldrei opnað á fyrr en með frásögn sinni. Feluleikur, bæling, skömm og ótti voru afleiðingarnar sem frásegjendur lýstu.

nidurlutur.png

Ríkjandi karlmennskuhugmyndum sem var lýst í frásögnum veittu karlmönnum lítið svigrúm til að tjá þær tilfinningar sem bærðust innra með þeim. Hugmyndin um karla sem harða, fjarlæga tilfinningum og sem skynsemisverur virtust ráðandi þar sem berskjöldun tilfinninga þótt merki um veikleika. Sögurnar vörpuðu ljósi á það hvernig karlar höfðu fylgt eftir eða agað sig að leikreglum kynjakerfisins í anda Butler eins og Svandís Anna Sigurðardóttir hefur lýst (2011, bls. 21). Karlar hafa þó vissulega og eðlilega tilfinningar, eins og annað fólk, en frásegjendur virtust ekki upplifa viðeigandi að aðrir tækju eftir því, hvorki sem börn né fullorðnir. Þetta er í samræmi við ráðandi karlmennskuhugmyndir um að slík tilfinningasemi bæri með sér vott um skort á karlmennsku eða drægi úr verðmæti þeirra sem karlkynseinstaklinga.

Tilfinningar_Col01.PNG

Af frásögnunum að dæma hefur sú karlmennskuhugmynd að karlar og drengir deili tilfinningalífi sínu ekki með öðrum sterk áhrif, jafnvel þrátt fyrir löngun þeirra til annars: „Ég byrgi ógeðslega mikið inní mér. Aðallega útaf #karlmennskan. Og ég er því miður ekki komin nálægt þeim stað að ég fari að opna fyrir eitthvað. Og það er afþví að maður er alinn upp í #karlmennskan menningu“. Sjálfsvíg ungra karlmanna eru margfalt algengari en sjálfsvíg kvenna (Embætti landlæknis, e. d.) og eru karlar taldir ólíklegri til að leita sér hjálpar við andlegum erfiðleikum enda er það rík krafa að karlmenn deili ekki tilfinningum sínum með öðrum, eins og frásagnirnar báru með sér. Feluleikurinn og baráttan við tilfinningar, sem karlar upplifðu, kann að eiga þátt í hárri tíðni sjálfsvíga karla eins og sumar frásagnir bentu til: „Fór langleiðina með að taka mitt eigið líf um tvítugt, keypti reipið og reyndi að gera hnút, kunni það ekki. Botninum náð og leitaði hjálpar hjá sálfræðingi, hjálpaði mér mikið og fékk aðra sýn á lífið. Hef ekki sagt fjölskyldu/vinum frá þessu því #karlmennskan - Fer í það núna.“

Image (2).png

Þrátt fyrir að frásegjandi hafi að lokum leitað sér faglegrar hjálpar hafði hann ekki sótt stuðning til fjölskyldu eða vina. Í samræmi við karlmennskuhugmyndir virtist vinátta karla ekki byggja á nánum tengslum né að persónuleg málefni væru rædd. Karlar og drengir vilja tala um tilfinningar sínar við vini en finnst það erfitt: „Á eitt stk sjálfsvígstilraun og 2 vikna innlögn á geðdeild að baki, vildi að mér finndist auðveldara að tala um tilfinningaflóðið sem tengist þessu öllu við strákavini mína #karlmennskan“. Íhaldssamar karlmennskuhugmyndir virtust þannig svo inngrónar (e. internal) í frásegjendur að þrátt fyrir að þeir vildu ekki gangast undir leikreglur kynjakerfisins og ráðandi karlmennskuhugmyndirnar, þá gerðu þeir það samt. Umfjöllun Svandísar Önnu Sigurðardóttur, um kenningar Butler, gagnast til að skilja þá hegðun í ljósi valdatengsla kynjakerfis, sem karlmennskuhugmyndir eru nátengdar við og haldið er uppi af ytri og innri hugmyndum (Svandís Anna Sigurðardóttir, 2011). Skömm virtist styrkja regluverkið enn frekar.

kvidi.png

Skömm
Skömm var líkt og rauður þráður í gegnum frásagnir karla sem lýstu því að upplifa tilfinningar sem þeir töldu að þeir ættu ekki að upplifa eða sem ástæðu þess að þeir földu tilfinningar sínar. Við stór áföll, sorg og missi töldu frásegjendur sig ekki mega eða eiga ekki að upplifa þær tilfinningar sem kraumuðu um innra með þeim. Frásögn af barnsmissi var lýsandi fyrir skömmina og ítök leikreglnanna þar sem frásegjandi baðst afsökunar á að hafa grátið fyrir framan vini sína nokkrum mánuðum eftir að hafa misst barnið sitt: „Felldi tár í sumarbústaðaferð með vinahópnum, fimm mánuðum eftir að við misstum son okkar. Sá mig samt knúinn til að segja “sorry með þetta væl í gær”, morguninn eftir. #karlmennskan“.

Tilfinningar karla virtust því vera nokkurskonar einkamál þeirra, sem þeir þurftu að tjá í einrúmi. „Þegar ég var í jarðarför hjá mömmu minni þá barðist ég við að gráta ekki því allir vinir mínir voru þar en þegar ég kom heim grét ég í marga klukkutíma #karlmennskan“. Því að missa völd yfir tilfinningum sínum eða að tjá þær fylgdi skömm, en skömmin var einnig skoruð á hólm eða hafnað í frásögnum karla. Einhverjir karlar töldu tilfinningar eðlilegar og ekkert til að skammast sín fyrir og haft er eftir þeim: „Ef mér líður illa þá líður mér fokking illa, engin skömm í því“, „Hef ég fellt ófá tárin og skammast mín nákvæmlega ekkert fyrir það“, „Ég hef oft grátið fyrir framan móður mína og aldrei fundið skömm yfir því“, „Var mikið í því að gráta seinasta sumar og skammaðist mín alltaf eftir hvert skipti. Er að vinna í því“.

Óttinn við að sýna umhyggju

umhyggjusam.png

Frásagnir af tilfinningum vörðuðu ekki einungis karlana sjálfa heldur einnig börnin í lífi þeirra. Í frásögnum birtist sú hugmynd að karlar ættu ekki að sýna börnum umhyggju, hvort sem er í starfi sínu eða til eigin barna. Frásagnirnar lýstu ekki einungis því að umhyggja fyrir börnum teldist ekki hæfa kyni þeirra, heldur þeirri upplifuðu ógn sem af þeim stafaði fyrir auðsýnda umhyggju til barna: „Þegar ég vann á leikskóla þorði ég ekki að faðma börnin, því var hræddur um að fólk héldi að ég væri perri“ og „Óttinn við viðbrögð samfélagsins, þegar ég sýni börnum (sem ég kenni) umhyggju í formi nándar eða faðmlags“. Karlar upplifðu því ótta við að sýna börnum umhyggju eða nánd, vegna hugmynda þeirra um viðhorf annars fólks. Viðhorf og álit annars fólks höfðu einnig áhrif á hvernig faðir umgekkst sinn eigin son í kringum ókunnugt fólk: „Stend mig að því að vera kaldur við þriggja ára son minn þegar við erum í kringum ókunnugt fólk. Ég reyni að vanda mig að sýna honum blíðu, til dæmis með því að sækja með honum kaffihús.“ Þessar frásagnir undirstrika enn frekar mikilvægi þess að karlar hafi áhrif á ráðandi hugmyndir um karlmennsku, þannig að þær feli í sér aukið rými til tjáningar tilfinninga. Sérstaklega þar sem hömlurnar voru ekki einungis á tilfinningalífi karlanna sjálfra heldur höfðu einnig áhrif á uppeldi og störf þeirra með börnum.

Karlar lýstu því að hafa tilfinningar, upplifa sterkar tilfinningar, eiga erfitt með tilfinningar sínar og því að hafa þjáðst við það að þurfa að fela þær eða bæla. Í þessu samhengi mætti eins líta á frásagnir af tilfinningum í heild sem andóf gegn ráðandi karlmennskuhugmyndum enda spretta þær fram 37 í krafti andófs gegn hömlum á lífi karla. Frásagnirnar, í sjálfu sér, stríða að minnsta kosti gegn leikreglum kynjakerfisins og þeim hugmyndum sem þær lýstu að hefðu haft íþyngjandi áhrif á líf frásegjenda. Þess vegna tel ég óhætt að túlka frásagnirnar sem andóf gegn ráðandi karlmennskuhugmyndum íslensks samfélags og vera til þess fallnar að skapa drengjum aukið rými fyrir tjáningu tilfinninga. Sú ályktun mín nýtur stuðnings í umfjöllun Connell og Messerschmidt um að hægt sé að hafa áhrif á ráðandi karlmennskuhugmyndir með einbeittum ásetningi (2005, bls. 853). 

[Texti er klipptur út úr meistararitgerðinni Karlar, karlmennskur og jafnrétti eftir Þorstein V. Einarsson]


FORRÉTTINDI

Forréttindi felast í einföldustu mynd í því að passa vel inn í það umhverfi sem þú ert hluti af. Forréttindi eru sjálfgefin en ekki áunnin réttindi eða eiginleikar sem auka virðingu, veita aðgengi að tækifærum eða auðvelda aðgengi að völdum umfram þau sem ekki hafa þessi forréttindi. Stundum er sagt að forréttindin séu ósýnileg þeim sem þau hafa, en augjós þeim sem skortir þau. Til dæmis er auðvelt að segja að peningar skipti ekki máli, ef þú hefur nóg af þeim eða að húðlitur skipti ekki máli, því þinn húðlitur hefur aldrei jaðarsett þig. 

Þættir sem geta skapað forréttindi eru kyn, kynhneigð, aldur, húðlitur, uppruni, trú, líkamleg færni, stétt og líkamsstærð. Í kjölfar jafnréttis- og mannréttindabaráttu hefur sjónum verið beint að forréttindum og hvernig þau hafa viðhaldið jaðarsetningu og kúgun fólks. Má þar nefna jaðarsetningu eða kúgun á svörtu og brúnu fólki, fólki með fötlun, fólki með geðgreiningar, hinsegin fólki, stúlkum og konum. Á meðan einhver hópur fólks er kerfisbundið haldið frá völdum, jaðarsettur, kúgaður eða beittur ofbeldi þrífst misrétti sem þarf að uppræta. Þess vegna er mikilvægt að læra á eigin forréttindi og merkingu þeirra í félagslegu samhengi. 

Forrettindi_Col03.PNG

Það að búa yfir forréttindum er ekki slæmt í sjálfu sér og einstaklingar þurfa ekki að bera skömm vegna þeirra. Hvítir, ófatlaðir, gagnkynhneigðir, sískynja, vestrænir, sterkbyggðir, efnaðir og félagslega vel stæðir karlar njóta almennt mestra forréttinda sem hópur. Það þýðir ekki að einstaklingar sem tilheyra þessum hópi hafi ekki þurft að glíma við erfiðleika eða mætt mótstöðu í lífinu. Heldur að sú staðreynd að þeir séu hvítir, ófatlaðir, gagnkynhneigðir, sískynja, vestrænir, sterkbyggðir, efnaðir og félagslega vel stæðir karlar hefur ekki verið notað til að kúga eða jaðarsetja þá.

Fólk sem býr við forréttindi getur notað þau á meðvitaðan og ábyrgan hátt til að styðja við jafnréttis- og mannréttindabaráttu. Karlar geta því nýtt forréttindi sín til að vinna að auknu jafnrétti, virðingu og mennsku sem er hluti af jákvæðri karlmennsku. Í því getur falist að taka afstöðu gegn mismunun, jaðarsetningu eða kúgun á fólki, hlusta og taka mark á reynsluheimi fólks sem er frábrugðinn þeirra eigin, vilja læra um valdatengsl og forréttindi og gangast við eigin forréttindum. Með virðingu fyrir reynslu annarra og meðvitund um eigin stöðu getum við gert þau rými sem við tilheyrum öruggari, beitt okkur gegn ofbeldi og átt þátt í að skapa samfélag þar sem sumum er ekki mismunað kerfisbundið á meðan aðrir njóta sjálfgefinna forréttinda.

Ítarefni

+ Umræðukveikja um forréttindi (sjá t.d. Bls. 46) https://www.includegender.org/wp-content/uploads/2014/04/esf.gor_.webb-1.pdf

+ Umræðukveikja um forréttindi stráka https://www.instagram.com/p/CDzX_RPgwtP/?utm_source=ig_web_copy_link 

+ Grein um forréttindi (McIntosh, P. (2005). White privilege: Unpacking the invisible knapsack.) https://psychology.umbc.edu/files/2016/10/White-Privilege_McIntosh-1989.pdf 

+ Mismunandi sjónarmið (Sandra Harding)

+ Að nýta forréttindin á ábyrgan hátt (Rannveig Traustadóttir (2007). Hugsjónir og fræðistörf. Kristín Aðalsteinsdóttir (ritstýra), Leitin lifandi: Líf og störf sextán kvenna (bls. 29-41). Reykjavík: Háskólaútgáfan.)

 + Um reynslu, afstöðu og völd (Gyða Margrét Pétursdóttir (2017). Fire-raising feminists: Embodied experience and activism in academia. European Journal of Women Studies, 24(1): 85-99.)



 
 

Jákvæð karlmennska - dæmi um áherslur 2021