Við tölum um tilfinningar okkar
Við þurfum hugrekki til að brjótast út úr karlmennsku feðraveldisins eins og að gangast við tilfinningum okkar, tala um þær og vera berskjaldaðir. Á einhvern undarlegan hátt hefur það verið talið óviðeigandi að karlar og drengir tjái eða gangist við tilfinningum sínum. Við höfum lært að fela þær, bæla og hunsa - setja stálbrynju utan um eðlilegar og nauðsynlegar tilfinningar sem fylgja því að vera mennskir. Þessi brynja hefur verið talin hæfa okkur, karlkyns einstaklingum, eins óhjálpleg og sú tegund karlmennsku er.
Það krefst gríðarlegs hugrekkis af okkur að byrja að rjúfa þessa stálbrynju og opna á flóru tilfinninganna, sérstaklega á fullorðinsárum. Það getur tekið á okkur að fara inn í berskjöldunina og gangast við erfiðum tilfinningum, sem hafa verið kældar niður, bældar og lokað á í áraraðir og jafnvel áratugi. Á fullorðinsárum er mjög líklegt að við þurfum að sækja okkur aðstoðar fagaðila til að komast í gegnum innbyrgðar og bældar tilfinningar.
Jákvæð karlmennska veitir okkur frelsi og lífsgæðin að opna og næra allar okkar tilfinningar. Af því að með því að loka á tilfinninngar þá er líka lokað á tengsl við annað fólk, djúpu tilfinningatengslin við fólkið sem við elskum. Við lokum líka á möguleikann til að leita okkur hjálpar ef við lærum að hunsa og bæla tilfinningar. Leyfum okkur að vera mennskir, tengdir tilfinningum okkar, umhverfi og öðru fólki. Og þið hin, standið ekki í vegi þeirra sem eru að reyna að brjótast út úr karlmennsku feðraveldisins. Verið nærandi og styðjandi og verið þannig hluti af menningu sem styður jákvæða karlmennsku.
Teikning: Styngvi
Útlitshönnun: Bergþóra Jónsdóttir
Ítarefni:
+Viðtal á Hringbraut um þunglyndi og sjálfsskaða hugsanir: https://hringbraut.frettabladid.is/sjonvarp/karlmennskan/thattur-4-thunglyndi-og-sjalfsvig/