Við tökum jafna ábyrgð á heimilis- og fjölskyldulífinu (mental load)

 Ábyrgð og yfirumsjón með heimilis- og fjölskylduhaldi leggst almennt þyngra á konur í sambúð með körlum. Konur hafa lýst því hvernig ólaunuð störf lenda á herðum þeirra sem veldur auknu álagi, ójöfnuði innan heimilis og kulnun. Áhrif þess eru víðtæk og ná út fyrir veggi heimilisins sem viðheldur misrétti í okkar samfélagi. Ríkjandi hugmyndir um að konur séu betur til þess fallnar að sýna umhyggju, sjá um börn og sinna heimili teygir anga sína til verkaskiptingar áratugi aftur í tímann. 

Jákvæð karlmennska felur í sér ábyrga afstöðu gegn misrétti og krefst þess af okkur að við horfumst af heiðarleika á framlag okkar til heimilis- og fjölskyldulífs og tökum jafnan þunga af hugrænu byrðinni sem fylgir því að muna og halda utan um alla mögulega hluti. Við getum talað um mental load (hugrænu byrðina) við maka okkar og kortlagt verkaskiptingu innan heimilisins. Þannig getum við sýnt af okkur jákvæða karlmennsku og unnið að því að jafna ábyrgð á heimilis- og fjölskyldulífi.

Teikning: Daudurart

Útlitshönnun: Bergþóra

Meðfylgjandi listi getur nýst pörum til að ræða saman um mental load og ábyrgð.

ALMENNT

  1. Skiptið þið makinn ábyrgðinni jafnt og meðvitað á milli ykkar?

  2. Eru þið sátt við skiptingu ábyrgðar og verkefna?

  3. Hafiði rætt verkaskiptingu og ábyrgð innan heimilisins?

  4. Ætlast þú til að maki þinn biðji um „aðstoð” við heimilis- og fjölskylduhaldið?

  5. Hverju berð þú ábyrgð á sem makinn þinn gerir ekki? Hversu oft á dag/viku/mánuði?

  6. Hver hefur frumkvæði að samskiptum við ættingja og vini?

  7. Hver sér um gjafir til fjölskyldu og vina?

HEIMILI

  1. Hver ákveður hvenær þarf að þrífa ísskápinn?

  2. Hvernig tæmist ruslakarfan inni á baði?

  3. Hversu oft þarf að vökva blómin? Og hvaða blóm mega ekki vera í suðurglugganum?

  4. Hvers vegna var ryksugað síðast?

  5. Hvenær var skipt um á rúmunum síðast?

  6. Hvar er jólapappírinn og límbandsrúllan?

  7. Hvernig verður þvotturinn hreinn?

  8. Hvernig veistu hvað vantar í matinn?

  9. Hvernig fer cheeriosið úr sófanum?

  10. Hvers vegna er spegillinn inni á baði ekki kámugur?

  11. Hver þrífur ruslaskápinn og glösin undan tannburstunum?

  12. Hvers vegna fórstu út með ruslið síðast?

  13. Á hvaða hitastigi er best að þvo handklæðin?

BÖRN

  1. Hver er tannlæknir barnanna?

  2. Hvenær eru íþróttaæfingar?

  3. Hvaða föt og útifatnað þarf að endurnýja?

  4. Hver pakkar fyrir fjölskylduna þegar farið er í ferðalög?

  5. Hver sér til þess að allt sé klárt fyrir ferðalag?

  6. Hver skipuleggur afmæli og aðrar veislur í fjölskyldunni?

  7. Hver sér um að merkja og fylla á aukafötin á leikskólanum?

  8. Veistu hversu reglulega þarf að panta tíma hjá tannlækni, lækni eða í klippingu?

  9. Hvernig uppgötvaðirðu að barnið þitt er með ofnæmi?

  10. Hvernig ákveður barnið þitt hvaða áhugamál það vill stunda?

  11. Hvernig veistu hvar barnið þitt er eftir skóla, þrátt fyrir að þú sért í vinnunni?

  12. Hvernig veistu hvaða ákvarðanir barnið þitt tekur í erfiðum aðstæðum?

  13. Hvert leitar barnið þitt fyrst, ef það er í vanda?

  14. Á hvern er kallað á heimilinu þegar eitthvað finnst ekki eða þarf aðstoð?

  15. Hvaða vítamín taka börnin þín?

  16. Hver sækir í leikskólann?

  17. Hver er oftast heima ef börnin eru veik?

  18. Hver sá um að græja leikskólapláss? En útiföt fyrir leikskólann?

  19. Hver keypti afmælisgjöfina frá þér til barna vina þinna?

  20. Hvaða stærð af fötum nota börnin þín?

  21. Hvernig mundirðu eftir starfsdeginum á leikskólanum?

  22. Á hvaða dögum er skólasund?

  23. Hvert fóru fötin sem voru orðin of lítil fyrir börnin?

[Listinn er ekki tæmandi]



Previous
Previous

Við trúum og styðjum við brotaþola

Next
Next

Við erum með allskonar líkama