Við trúum og styðjum við brotaþola
Við hlustum, trúum og styðjum konur, karla og hinsegin fólk í lífi okkar sem segir frá ofbeldi sem það hefur þurft að þola. Í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi er mikilvægt að virða reynslu brotaþola, skilja afleiðingar ofbeldis og læra um margskonar birtingarmyndir kynferðisofbeldis. Þegar fólk segir frá kynferðisofbeldi og er ekki trúað þá upplifir fólk eins og það rofni tengsl við annað fólk og samfélagið sem það tilheyrir.
Lífseigar mýtur um ofbeldi, einkum kynferðisofbeldi, koma í veg fyrir að þolendur fái réttlætinu framgengt, að þeim sé trúað og njóti nauðsynlegs stuðnings. Þegar karlar hrökklast í vörn í umræðu um kynbundið ofbeldi, benda á að ekki beiti allir menn ofbeldi eða karlar verði líka fyrir ofbeldi, eru þeir (ómeðvitað) að færa fókus af þolendum, yfir á sjálfa sig og þar með koma í veg fyrir frekari umræðu um ofbeldi.
Jákvæð karlmennska felur í sér að taka afstöðu gegn ofbeldi, að trúa og styðja brotaþola og vita að ofbeldi er alltaf á ábyrgð þeirra sem beita því en er aldrei brotaþola að kenna. Við getum unnið gegn menningu sem gerir ofbeldi kleift að viðgangast m.a. með því að trúa og styðja við brotaþola.
Teikning: Herdís @Herdill
Útlitshönnun: Bergþóra @bergþóra
Ítarefni:
+Ábyrgar konur og sjúkir karlar. Birtingarmyndir nauðgunarmenningar í íslensku samfélagi. https://ritid.hi.is/index.php/ritid/article/view/49
+13% réttlæti: https://stigamot.is/er-13-rettlaeti-nog/
+Fræðsluefni frá kvennaathvarfinu (Skiptu þér af: https://kvennaathvarf.is/wp-content/uploads/2018/02/Skiptu-þér-af.pdf
+Skilgreiningar á heimilisofbeldi: https://www.kvennaathvarf.is/ur-moppum/
+Aðgengilegt fræðsluefni, miðað að ungu fólki: https://www.sjukast.is/
+Stuttur fræðsluþáttur um nauðgunarmenningu og skrímslaorðræðuna: https://stundin.is/spila/243/
+xyonline, Michael Flood: http://xyonline.net/category/article-content/violence
Við tökum jafna ábyrgð á heimilis- og fjölskyldulífinu (mental load)
Ábyrgð og yfirumsjón með heimilis- og fjölskylduhaldi leggst almennt þyngra á konur í sambúð með körlum. Konur hafa lýst því hvernig ólaunuð störf lenda á herðum þeirra sem veldur auknu álagi, ójöfnuði innan heimilis og kulnun. Áhrif þess eru víðtæk og ná út fyrir veggi heimilisins sem viðheldur misrétti í okkar samfélagi. Ríkjandi hugmyndir um að konur séu betur til þess fallnar að sýna umhyggju, sjá um börn og sinna heimili teygir anga sína til verkaskiptingar áratugi aftur í tímann.
Jákvæð karlmennska felur í sér ábyrga afstöðu gegn misrétti og krefst þess af okkur að við horfumst af heiðarleika á framlag okkar til heimilis- og fjölskyldulífs og tökum jafnan þunga af hugrænu byrðinni sem fylgir því að muna og halda utan um alla mögulega hluti. Við getum talað um mental load (hugrænu byrðina) við maka okkar og kortlagt verkaskiptingu innan heimilisins. Þannig getum við sýnt af okkur jákvæða karlmennsku og unnið að því að jafna ábyrgð á heimilis- og fjölskyldulífi.
Teikning: Daudurart
Útlitshönnun: Bergþóra
Meðfylgjandi listi getur nýst pörum til að ræða saman um mental load og ábyrgð.
ALMENNT
Skiptið þið makinn ábyrgðinni jafnt og meðvitað á milli ykkar?
Eru þið sátt við skiptingu ábyrgðar og verkefna?
Hafiði rætt verkaskiptingu og ábyrgð innan heimilisins?
Ætlast þú til að maki þinn biðji um „aðstoð” við heimilis- og fjölskylduhaldið?
Hverju berð þú ábyrgð á sem makinn þinn gerir ekki? Hversu oft á dag/viku/mánuði?
Hver hefur frumkvæði að samskiptum við ættingja og vini?
Hver sér um gjafir til fjölskyldu og vina?
HEIMILI
Hver ákveður hvenær þarf að þrífa ísskápinn?
Hvernig tæmist ruslakarfan inni á baði?
Hversu oft þarf að vökva blómin? Og hvaða blóm mega ekki vera í suðurglugganum?
Hvers vegna var ryksugað síðast?
Hvenær var skipt um á rúmunum síðast?
Hvar er jólapappírinn og límbandsrúllan?
Hvernig verður þvotturinn hreinn?
Hvernig veistu hvað vantar í matinn?
Hvernig fer cheeriosið úr sófanum?
Hvers vegna er spegillinn inni á baði ekki kámugur?
Hver þrífur ruslaskápinn og glösin undan tannburstunum?
Hvers vegna fórstu út með ruslið síðast?
Á hvaða hitastigi er best að þvo handklæðin?
BÖRN
Hver er tannlæknir barnanna?
Hvenær eru íþróttaæfingar?
Hvaða föt og útifatnað þarf að endurnýja?
Hver pakkar fyrir fjölskylduna þegar farið er í ferðalög?
Hver sér til þess að allt sé klárt fyrir ferðalag?
Hver skipuleggur afmæli og aðrar veislur í fjölskyldunni?
Hver sér um að merkja og fylla á aukafötin á leikskólanum?
Veistu hversu reglulega þarf að panta tíma hjá tannlækni, lækni eða í klippingu?
Hvernig uppgötvaðirðu að barnið þitt er með ofnæmi?
Hvernig ákveður barnið þitt hvaða áhugamál það vill stunda?
Hvernig veistu hvar barnið þitt er eftir skóla, þrátt fyrir að þú sért í vinnunni?
Hvernig veistu hvaða ákvarðanir barnið þitt tekur í erfiðum aðstæðum?
Hvert leitar barnið þitt fyrst, ef það er í vanda?
Á hvern er kallað á heimilinu þegar eitthvað finnst ekki eða þarf aðstoð?
Hvaða vítamín taka börnin þín?
Hver sækir í leikskólann?
Hver er oftast heima ef börnin eru veik?
Hver sá um að græja leikskólapláss? En útiföt fyrir leikskólann?
Hver keypti afmælisgjöfina frá þér til barna vina þinna?
Hvaða stærð af fötum nota börnin þín?
Hvernig mundirðu eftir starfsdeginum á leikskólanum?
Á hvaða dögum er skólasund?
Hvert fóru fötin sem voru orðin of lítil fyrir börnin?
[Listinn er ekki tæmandi]
Við ögrum staðalmyndum
Við erum mun fjölbreyttari og ólíkari en staðalmyndir um drengi og karla og ráðandi karlmennskuhugmyndir gefa til kynna. Staðalmyndir eru einfaldaðar, alhæfandi og takmarkandi hugmyndir sem hafa áhrif á tækifæri, lífsgæði og sjálfsmynd okkar. Staðalmyndirnar ná til hegðunar, viðhorfa, útlits, námsvals, starfsvals, líkamsvaxtar og geta komið í veg fyrir að við þorum að leita okkur hjálpar ef við verðum fyrir ofbeldi eða áföllum. Þá geta staðalmyndir haft áhrif á frammistöðu okkur t.d. í námi og íþróttum.
Staðalmyndir eru nátengdar fordómum sem viðhalda mismunun og misrétti, eru stýrandi og geta átt þátt í ofbeldi t.d. gegn fólki vegna húðlitar, trúar eða kynhneigðar. Staðalmyndir næra fordóma gegn t.d. hinsegin fólki, feitu fólki, fólki með fötlun og brúnu og svörtu fólki.
Jákvæð karlmennska er afstaða gegn alhæfandi, fordómafullum og útilokandi staðalmyndum. Við getum stutt við jafnrétti, mannréttindi og frelsi okkar með því að ögra ríkjandi staðalmyndum um drengi og karla.
Teikning: Herdill
Útlitshönnun: Bergþóra Jónsdóttir
Ítarefni:
https://otila.is/vidhorf/stadlar/stadalmyndir/
https://menntastefna.is/wp-content/uploads/2020/02/Sta%C3%B0almyndir_punktar-fyrir-kennara.pdf
Hvernig staðalmyndir geta haft áhrif á frammistöðu (Sex and cognition: gender and cognitive functions) https://doi.org/10.1016/j.conb.2016.02.007
Skýrsa Reykjavíkurborgar um hvernig má vinna gegn hamlandi staðalmyndum í lífi barna:
https://reykjavik.is/sites/default/files/ymis_skjol/skjol_utgefid_efni/ut_fyrir_boxid.pdf