Hlaðvörp og pistlar

  • Edda Falak stjórnandi hlaðvarpsins Eigin konur og Ólöf Tara stjórnarkona í Öfgum hafa verið ansi áhrifamiklar undanfarna mánuði og að mörgu leiti leitt aðra bylgju metoo og þær samfélagshræringar, ef svo má segja, sem orðið hafa undanfarna daga og vikur.

    Við settumst niður og veltum fyrir okkur hvort nú værum við að horfa fram á raunverulegar breytingar, alvöru afstöðu valdafólks og fyrirtækja eða hvort meintir gerendur muni bara fara að rúlla til baka í makindum sínum og jafnvel með árásum á þolendur og baráttufólk.

    Edda Falak og Ólöf Tara lýsa upplifun sinni af akívisma og tilraunum fólks til að þagga niður í þeim en þær lýsa líka væntingum sínum til þess að hið opinbera og fyrirtæki verji raunverulegu fjármagni í baráttu gegn ofbeldi, bæði til að mæta afleiðingum þess en einkum til að fyrirbyggja frekara ofbeldi.

    Umsjón: Þorsteinn V. Einarsson

    Músík: Mr. Silla - Naruto (án söngs)

    Þátturinn er í boði Veganbúðarinnar, The Body Shop, Dominos og bakhjarla Karlmennskunnar.

 
  • Hildur Lilliendahl er brautryðjandi í íslensku samfélagi og femínískur byltingaleiðtogi sem á stóran þátt í að varpa ljósi á og hreyfa við djúpstæðri kvenfyrirlitningu og karllægni. Það er engin spurning að hennar barátta hefur skapað aðstæður sem síðan hafa leitt af sér allskonar misstórar byltingar síðustu árin.

    Þakkirnar sem Hildur hefur fengið fyrir sitt framlag til jafnréttis hafa þó aðallega verið í formi niðurlæginga, árása, hótana og fyrirlitningar. Óumbeðið varð Hildur hættulegasti óvinur feðraveldis á einni nóttu og í kjölfarið nokkurskonar holdgervingur femínismans í augum ansi margra Íslendinga. Ummæli sem hún lét aldrei frá sér, um tjaldhæl, hafa síðan verið eignuð henni og stöðugt notuð til að níða og niðurlægja.

    Við ræðum málefnið sem triggerar Hildi hvað mest, áhrifin sem óumbeðin smellifréttamennska, hótanir og andúð hefur haft á líf hennar, konur sem hata konur, hvaða áskoranir eru mikilvægastar að yfirstíga í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi og ýmislegt fleira.

    Veganbúðin, Dominos, The Body Shop og bakhjarlar Karlmennskunnar bjóða upp á þennan þátt.

 

Vinsælustu hlaðvarpsþættirnir 2021

#43 „KVENLEGIR MENN MUNU EKKI ERFA GUÐS RÍKI” - BIRGIR FANNAR

Grímulaus kvenfyrirlitning, þolendaskömmun og djúp ást á karlmanninum sem höfuð fjölskyldunnar einkenndi vinsælasta viðmælanda síðasta árs. Vinsældir hans fólust sennilega frekar í hve hressilega fólki blöskraði frekar en eitthvað annað.

#9 MENTAL LOAD: HJÓNIN HULDA OG ÞORSTEINN

Þáttur frá 2020 varð næstvinsælastur á árinu en þarna má segja að ég hafi berskjaldað sjálfan mig og hversu þunga byrði Hulda, konan mín, hefur þurft að bera á heimilis- og fjölskylduhaldinu.

#60 HREINSUNARELDUR SEM BRENNDI ÞOLENDUR - ÞÓRA ARNÓRSDÓTTIR RITSTJÓRI KVEIKS

Vægast sagt umdeildur Kveiks-þáttur með einhliða frásögn manns sem sent hafði myndir af typpinu á sér til ungra stúlkna og gagnrýnislaus umfjöllun um „slaufun” samfélagsins á honum, var hlandblaut tuska í andlit þolenda. Þóra var beðin um skýringar og endurlit á umfjöllunina sem mörgum þótti meingölluð.

#46 „ÉG ER SMÁ HOMOPHOBIC SJÁLFUR” - BASSI MARAJ

Raunveruleikaþátta- og poppstjarnan Bassi Maraj spjallaði um allt og ekkert í einum kaótískasta hlaðvarpsþætti Karlmennskunnar.

#30 „BROS BEFORE HOES” - EINAR ÓMARS OG SÓLBORG GUÐBRANDS

Vinir mínir, Einar Ómars og Sólborg Guðbrands, komu í spjall þegar önnur bylgja metoo var að rísa. Einlægt spjall um mörk, klám, forréttindi og karlakúltúr.

#49 „ÞAÐ ER BÚIÐ AÐ ÞAGGA NIÐUR MILLJÓN SVONA MÁL”

- PÉTUR MARTEINSSON FYRRVERANDI ATVINNU- OG LANDSLIÐSMAÐUR Í KNATTSPYRNU. KSÍ málið var í hæstu hæðum og mikil umræða um klefamenningu og fótboltamenn sem beita ofbeldi. Pétur Marteins fyrrverandi landsliðsmaður og atvinnumaður í fótbolta veitti innsýn í ferilinn sinn og mat stöðuna sem var þá í gangi.

  • Sérfræðingarnir úr pallborði Kveiks í hreinsunarþætti eftir Hreinsunareld Þóris Sæmundssonar eru viðmælendur í nýjasta hlaðvarpsþætti Karlmennskunnar. Skiptar skoðanir eru á gagnsemi umfjöllunar Kveiks en ljóst er að sérfræðingarnir komu ekki öllu frá sér sem þeir vildu og jafnvel komu aðeins hálfkláraðri hugsun frá sér. Enda hafa sérfræðingarnir úr pallborðinu gagnrýnt þáttinn sem þau tóku þátt í. Sum þeirra talað um of lítinn tíma, of leiðandi spurningar Þóru, þau hefðu ekki komið öllu að eða ekki nógu rétt haft eftir þeim og síðan mátti skynja að sérfræðingarnir væru innbyrðis ósammála.

    Markmið 63. hlaðvarpsþáttar Karlmennskunnar er að draga fram þau atriði sem sérfræðingarnir brunnu inni með, það sem þau hefðu viljað koma betur að eða skýra nánar. Einnig að kryfja nánar atriði sem þarf að ræða og skýra í tengslum við gerendur, þolendur og ofbeldi. Hvað t.d. átti Katrín við, þegar hún talaði um að það vantar „handrit“ fyrir gerendur? Hvers vegna voru þau ósátt við þáttinn í heild sinni?

    Ólöf Tara Harðardóttir, Katrín Ólafsdóttir og Þórður Kristinsson áttu klukkutíma samtal áður en við bjölluðum stuttlega á Sóley Tómasdóttur. Þú getur hlustað á þáttinn í spilaranum eða á helstu hlaðvarpsveitum.

 
  • Í umræðu um kynferðisofbeldi hefur bersýnilega komið í ljós að þolendur eiga erfitt með að ná fram réttlæti. Þegar konur, sem eru að megninu til þolendurnir, opna á sára reynslu sína og jafnvel nafngreina gerendur mætir þeim orðræða réttarkerfisins. „Dómstóll götunnar“, „saklaus uns sekt er sönnuð“ og talað um „mannorðsmorð“. Rannsóknir hafa hins vegar ítrekað dregið fram að réttarkerfið er illa hannað til að taka á kynferðisofbeldi og nær sjaldnast að tryggja réttlæti í hugum brotaþola.

    Þegar stofnanir sem eiga að tryggja réttlæti eru illa í stakk búnar til þess, kemur upp erfið staða þar sem þá þarf að leita annara leiða. Afrakstur áratugalangrar baráttu þolenda kynferðisbrota fyrir viðurkenningu, sem og tækninýjungar eins og samfélagsmiðlar, hefur leitt til þess að þolendur geta loks í auknum mæli stigið fram og talað um reynslu sína af ofbeldi og þannig krafið samfélagið um stuðning og þrýst á gerendur að taka ábyrgð á gjörðum sínum.

    Viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa. Ýmist upplifa þolendur stuðning eða mótbyr. Mótbyr sem tekur á sig ýmsar myndir. Meintir gerendur ýmist hóta lögsóknum eða hefja einkarefsimál gegn þolendum fyrir að tjá sig opinberlega, eða fara í mál gegn atvinnurekendum ef þeir hafa misst starfið í kjölfarið. Einnig ber á gerendameðvirkni, hannúð og þolendaskömm á meðal ýmissa aðila á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum.

    Félagslegt réttlæti er ekki síður mikilvægt en lagalegt réttlæti. Rannsóknir hafa sýnt að lykilþættir í hugmyndum þolenda um réttlæti er að upplifa stuðning frá nærumhverfi sínu og samfélaginu og að gerendur taki ábyrgð á gjörðum sínum. Mikilvægt er að flækjast ekki um of í hugtökum réttarkerfisins þegar kemur að félagslegu réttlæti. Hin félagslega krafa er að við sem vinir, vinkonur, fjölskyldumeðlimir, samstarfsmenn, atvinnurekendur gerenda og þolenda styðjum þolendur í leit sinni að viðurkenningu og sköpum pressu á gerendur til að taka ábyrgð á gjörðum sínum. Að draga ekki úr ábyrgð þeirra eða gera lítið úr brotum. Það er liður í því að þroskast og búa til betra samfélag þar sem kynferðisofbeldi þrífst ekki. Fyrst þolendur svo gerendur. (Texti skrifaður með Hildi Fjólu Antonsdóttur doktor í réttarfélagsfræði / teikning Anna Shumeeva).

    GERENDUR FÁ AFSLÁTT EN HVAÐ FÁ ÞOLENDUR?

    Í þessum anda var nýjasti hlaðvarpsþáttur Karlmennskunnar þar sem baráttukonurnar Ólöf Tara Harðardóttir meðlimur í Öfgum og Fjóla Heiðdal veittu innsýn í upplifun þolenda og baráttukvenna á umræðunni um kynferðisofbeldi og gerendur. Gerendamiðaður fókus sem oft er litaður af gerendameðvirkni, hannúð og gagnrýni á þolendur og baráttufólk gegn ofbeldi hefur sannarlega triggerandi áhrif á þolendur. Eins og Fjóla Heiðdal lýsti áhrifum umræðunnar á sig, verandi þolandi ofbeldis: „Að fá allar þessar frásagnir upp aftur og sjá hvað við höfum náð fram litlu réttlæti og sjá hvað mótstaðan er mikil vekur upp áfallastreituröskunar einkenni. Ég er með stoðkerfisvanda og mígrenisköst, viðkvæm og lítil í mér. Þetta hefur áhrif á hvernig ég sinni vinnunni minni, háskólanáminu mínu og börnunum mínum. Þetta litast út í allt mitt líf, þetta eru ekki bara andleg einkenni heldur er ég actually með líkamleg einkenni við umræðunni.“.

    Í þættinum veltum við því fyrir okkur við hverja sumir „sérfræðingar“ eru að tala þegar talað er um að „baráttan þurfi að vera málefnaleg“ og þegar spurt er hvort „taka eigi menn af lífi“. Er þá verið að styðja gerendur til að axla ábyrgð og ýta undir pressuna sem byltingar kvenna hafa skapað á gerendur að líta í eigin barm og gangast við gjörðum sínum? Eða er eingöngu verið að beina sjónum að þolendum og baráttufólki og fá það til að hætta að tala um reynslu sína og ofbeldið? Eru „sérfræðingarnir“ og áhugafólkið, sem fær gjarnan allt of mikið pláss í umræðunni, jafnvel að vinna þolendum og samfélaginu meiri skaða með þessum athugasemdum?

    Þátturinn er tekinn upp í stúdíó Macland og er í boði Dominos, Veganbúðarinnar, The Body Shop og bakhjarla Karlmennskunnar (karlmennskan.is/styrkja).