„Hvað eigum við að öskra þetta lengi!?“

Nýstofnaður aðgerðarhópur, ÖFGAR, hefur blásið kröftugu lífi í seinni bylgju eða aðra bylgju metoo með því að birta nafnlausar frásagnir kvenna og stúlkna af áreitni og ofbeldi ónafngreinds þekkts tónlistarmanns, sem fjölmiðlar hafa tengt við Ingó Veðurguð. Hópurinn Öfgar og AGN (aðgerðahópur gegn nauðgunarmenningu) sendu sömuleiðis frá sér yfirlýsingu með áskorun um að Ingó Veðurguð yrði afbókaður til að stýra brekkusöng á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Þjóðhátíðarnefnd tók sér nokkra daga til umhugsunar og sendi síðan yfirlýsingu í byrjun vikunnar þar sem tilkynnt var að Ingó myndi ekki stýra brekkusöngnum. Viðbrögð fólks hafa ekki látið á sér standa, stofnað hefur verið til undirskriftarlista um að fá Ingó aftur inn í grunnskóla með böll, gæslustjóri Þjóðhátíðar hefur sagt sig frá störfum sínum í mótmælaskyni og mörg hafa skrifað Ingó stuðningsyfirlýsingar í athugasemdakerfum fréttamiðlanna.

„Öfga feministar hirða mannorðið af mönnum“ 

Þessa millifyrirsögn á kona yfir miðjum aldri og hafði fengið 28 læk fyrir á nokkrum klukkustundum. Tilefnið var fréttaumfjöllun um að Ingó hefði verið afbókaður á Þjóðhátið eftir að fjölmiðlar höfðu tengt nafnlausu frásagnirnar við hann. „Það er dapurlegt að þjóðhátiðarnefnd hafi fallið fyrir dómstóli götunar, að láta nafnlausar flökkusögur ráða gjörðum sínum, sýnir ótrúlegan aumingjaskap og meðvirkni með einhverju sem engin veit hvað er.“ skrifaði karlmaður á miðjum aldri, við sama tilefni, og hafði hlotið fyrir það 56 læk á tveimur klukkustundum. „Gróa á leiti, engar sannanir, bara blaður á netinu, þetta er orðið tiskufyrirbæri, ekkert mál að búa til Facebook account og pósta sögu til að búa til eitthvað, þetta cancel culture dæmi er orðið að tiskubylgju í heiminum.“ skrifaði enn annar og hafði hlotið tug læka á tveimur klukkustundum. Öfga femínistar, dómstóll götunnar, gróa á leiti, tilbúnar sögur og cancel culture eru hugtök sem hafa verið ansi áberandi. Dómstóll götunnar virðist því vera búinn að dæma frásagnir kvenna af ofbeldi tilbúning öfgafemínista sem ætli sér að útskúfa saklausum mönnum.


ÖFGAR

Ólöf Tara og Hulda Hrund, meðlimir ÖFGA, voru viðmælendur í nýjasta hlaðvarpsþætti Karlmennskunnar og ræddu meðal annars viðbrögð fólks við frásögnum kvenna af ofbeldi. „Ég get alveg spurt einhvern gæja, mundir þú vilja að dóttur þinni yrði nauðgað? Nei, að sjálfsögðu ekki. En mundi hann taka afstöðu með öðrum þolanda ef hann væri ekki tengdur honum? Eflaust ekki. [...] Þetta þarf alltaf að snerta okkur svo djúpt svo við getum trúað og tekið afstöðu. Hvað eigum við að öskra þetta lengi?!“, segir Ólöf Tara og vísar þar til þess hversu gjarnt fólk er að taka afstöðu gegn þolendum en taka frekar upp hanskann fyrir meintum gerendum. Hulda Hrund segir að umræða um mannorðsmorð og cancel culture sé í raun þversögn, því það eru á endanum þolendur sem hljóta skaða og útskúfun fyrir að tjá sig. „Fólk segir að við séum að stunda mannorðsmorð. Hvaða heilhveitis mannorðsmorð er verið að stunda? Var það mannorðsmorð biskupsins eða lögreglumannsins eða ökukennarans eða körfuboltamannsins eða fótboltamannsins? Hvaða mannorðsmorð erum við að tala um? [...] endaði með því að hún [þolandinn] þurfti að flytja úr landi eftir að hún kom fram“, segir Hulda Hrund og vísar til mála þar sem dómar hafa fallið með sýnilega takmörkuðum afleiðingum fyrir gerendur, þrátt fyrir dóma.


„Ekki nauðga!“

1.png

„Af hverju er það á okkar ábyrgð að okkur sé ekki nauðgað? [...] Ekki vera svona klædd, ekki drekka of mikið, ekki fara ein á klósettið, taktu alltaf vinkonu þína með þér, taktu helst einhvern gaur með þér sem er vinur þinn í hópnum, ekki vera ein. Í staðinn fyrir bara: ekki nauðga!“  segir Hulda Hrund og Ólöf Tara bætir við „Ef þú ert eitthvað hræddur um að það verði logið upp á þig. Ekki vera fullur niðri í miðbæ. Ekki vera einn úti á kvöldin. Passaðu þig bara, passaðu drykkinn þinn. Hafðu alltaf félaga þinn með þér til að passa upp á þig. Ef þú ætlar að vera hræddur við þetta, þá skalt þú bara brynja þig fyrir þessu.“

Hlustaðu á 39. hlaðvarpsþátt Karlmennskunnar þar sem Hulda Hrund og Ólöf Tara, fulltrúar ÖFGA, segja frá markmiði og tilurð hópsins, ræða gerendameðvirkni og nauðgunarmenningu, pota í algenga orðræðu gegn þolendum m.a. í athugasemdakerfum fjölmiðla og hugtökin styðjandi og mengandi kvenleiki eru tekin fyrir.