„Rangar sakargiftir eru ekki algengari í kynferðisbrotamálum en öðrum brotaflokkum“

Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari er viðmælandi í nýjasta hlaðvarpsþætti Karlmennskunnar þar sem hún fer yfir ákæruferli í kynferðisbrotum, gagnrýnir Landsrétt fyrir að lækka refsingar og útskýrir hvað skýri það að sum mál séu felld niður. „Ég get ekki leyft mér að vera handviss um eitthvað mál, því ég trúi þessari en ekki þessum. Og samkvæmt lögum þá hefur ákæruvaldið hlutlægnisskyldu. Erum að reyna að láta hið sanna koma í ljós. Getum alltaf spurt okkur hvar þessi mörk eigi að liggja, þurfum við að vera 50% viss um sakfellingu eða 95% viss til að fara áfram með málið. Það er engin ríkislína [...] Við erum með 70-75% sakfellingarhlutfall í kynferðisbrotum og það er ágætt. Ef það væri 100% þá værum við ekki að láta reyna á nægjanlega mörg mál“.

Kolbrún hefur starfað í 16 ár hjá ákæruvaldinu og telur margt hafa breyst á þeim tíma meðal annars vegna háværrar gagnrýni brotaþola. „Það er mjög gott þegar fólk lætur vita hvernig það er að fara í gegnum kerfið. „Þetta er rosalega langur tími, fékk aldrei upplýsingar, beið í tvö ár eftir að búið væri að afgreiða málið mitt og hvað gerðist svo? Ég fékk sent eitthvað bréf heim. Ég fékk aldrei samtalið“. Þetta er gagnrýnin sem leiddi til þess að við tókum upp nýtt verklag“. Þó segir Kolbrún að ákæruvaldið megi ekki sveiflast um of með tíðarandanum og láta umfjöllun fjölmiðla stýra vinnulagi, þótt hún viðurkenni að það hafi vissulega áhrif.

Þegar hávær umræða er um kynferðisbrot fljóta ýmsar mýtur upp á yfirborðið. Ein þessara mýta er að falskar ásakanir séu svo algengar að karlmenn þurfi hreinlega að hafa varann á sér. Kolbrún telur falskar ásakanir eða rangar sakargiftir ekki vera algengari í kynferðisbrotamálum en í öðrum brotaflokkum. „Við höfum nokkra dóma þar sem hefur verið ákært fyrir rangar sakargifir í tengslum við kynferðisbrot. [...] Við höfum alveg dæmi um að einhver er kærður fyrir nauðgun, málið er fellt niður og í kjölfarið kemur þá kæra á móti fyrir rangar sakargiftir [...] Rannsóknir sýna að rangar sakargiftir eru ekki algengari í kynferðisbrotamálum en öðrum brotaflokkum. Alls ekki.“

Hlustaðu á 36. þátt hlaðvarpsins Karlmennskan á Spotify eða Podcast. Þátturinn er í boði Veganbúðarinnar og The Body Shop og er tekinn upp í stúdíó Macland.