„Við verðum að afbyggja það að hvít karlmennska sé hlutleysi“

„Við höfum bara ákveðið að hvítir karlkyns líkamar og þeirra vitund sé hlutlaus og það er marker sem við verðum að afbyggja, það að hvít karlmennska sé hlutleysi“ segir Anna Marsý dagskrárgerðamaður hjá RÚV í samtali við Andra Frey Viðarsson dagskrárgerðamann hjá RÚV og Þorstein V. Einarsson.

#37 Hlutleysi Andri og Anna Marsý.png

Anna Marsý ætlaði að verða formaður stúdentaráðs og ritstjóri hjá forlagi, var virk í stúdentapólitík og hagsmunabaráttu stúdenta en heillaðist af fjölmiðlun, poppmenningu og „intersectional“ femínisma. Mónitor, mbl, nám í audio journalism í Bandaríkjunum, fann þar áhugasviðið sitt hljóðmiðlun og er nú í Lestinni á Rás 1. Andri Freyr byrjaði 1998 með útvarpsþáttinn Karate á X-inu og svo varð hann Freysi og þá umsjónarmaður Capone, Litlu hafmeyjunnar, Virkra morgna og núna er hann í síðdegisútvarpinu á Rás 2. Mögulega á Andri Freyr fyrsta sjálfsviðtal fjölmiðlunar þar sem hann tók viðtal við sjálfan sig til að villa um fyrir fólki þegar hann var kominn upp við vegg með karakterinn Freysa. Það er einmitt eitt sjálfsviðtal sem varð til umfjöllunar sem leiddi umræðuna að valdi fjölmiðla.

Sjálfsviðtal misbeiting valds eða eðlileg fjölmiðlun?

Fjölmiðlar eru gjarnan kallaðir fjórða valdið á eftir eða samhliða dóms-, framkvæmda- og löggjafarvaldinu og getur efnisval dagskrárgerðafólks eða ritstjórnar haft töluverð áhrif í lýðræðissamfélagi. Í lögum um fjölmiðla er fjölmiðill skilgreindur sem „hvers konar miðill sem með reglubundnum hætti miðlar til almennings efni er lýtur ritstjórn“ og með ritstjórn er átt við þann sem ber „ábyrgð á efni og efnisvali og ákvarðar hvernig það er skipulagt“ (https://www.althingi.is/lagas/nuna/2011038.html). Samkvæmt þessu er hlaðvarp fjölmiðill og umsjónaraðilinn þá ritstjóri en út frá því sjónarhorni velti Anna Marsý fyrir sér fjölmiðlunarlandslaginu í kjölfar sjálfsviðtals Sölva Tryggvasonar. „Almennt virtist umræðan snúast á sveif með honum, að hann væri fórnarlamb í sínum aðstæðum og það var ekki kominn fram neinn kærandi eða þolandi“. Taldi Anna Marsý tímaspursmál hvenær þolandi eða þolendur stígu fram, vegna tengsla sinna við „undirheima“ kvenna, og réðst því í pistlagerð um sjálfsviðtal ritstjórans Sölva Tryggvasonar. „Pistillinn snerist um þessa þróun hvernig djúp persónuleg viðtöl þar sem fólk berskjaldar sig gjörsamlega hafa verið að verða fyrirferðameiri á fjölmiðlamarkaði og hvernig þau í rauninni halda mörgum fjölmiðlum á floti. [...] Aukin einkavæðing viðtalsins tengist kannski aukinni einkavæðingu fjölmiðla og  leiðir það síðan áfram í hvernig Sölvi er birtingamynd einkavæðingar viðtalsins þar sem hann tók djúp persónuleg viðtöl sem einhvernveginn snerust líka alltaf aðeins um hans eigin persónu. Og auðvitað kórónaðist þarna í lokin þegar hann tók viðtal við sjálfan sig“

Þá veltir Anna Marsý því upp hvaða þýðingu það hefur þegar fjölmiðlafólk tekur viðtal við sig sjálft og sérstaklega um álitamál: „Fólk gleymir því að hlaðvarp og fylgið sem þeim fylgja er vald. Við myndum ekki sætta okkur við að Helgi Seljan tæki viðtal við sjálfan sig í Kastljósinu. Af hverju er það svona eðlilegt [...] og hvers vegna skyldum við ekki vera skeptísk hvernig hann [Sölvi] beitir þessu valdi?“.

Það er ekkert til sem heitir hlutleysi

„Helgi Seljan, æskuvinur minn er búinn að vera mikið í umræðunni út af stóru máli [...] búið að vera erfitt að vera hlutlaus“ segir Andri Freyr og lýsir því hvernig það getur verið flókið að hafa ekki skoðanir sem fjölmiðlamaður, vera hlutlaus og fjalla ekki um málefni sem tengjast manni persónulega á jafn litlu landi og Íslandi. „Það er ekkert til sem heitir hlutleysi. Ég er kona, ég lifi í mínum pólitíska líkama og allir líkamar eru pólitískir. Við höfum bara ákveðið að hvítir karlkyns líkamar og þeirra vitund sé hlutlaus og það er marker sem við verðum að afbyggja, það að hvít karlmennska sé hlutleysi“ segir Anna Marsý og bendir á að það sé nauðsynlegt að líða pínu óþægilega og vera sjálfsgagnrýnin.

Er ég kannski bara karlremba?

„Mér líður stundum eins og ég sé á jarðsprengjusvæði [...] maður er alltaf að passa sig, og maður veit ekki alveg á hverju maður er að passa sig. Maður vill alltaf vera maður sjálfur, svo er maður stundum bíddu er ég, er ég kannski bara karlremba?“ segir Andri Freyr þegar hann er spurður hvort honum finnist umræða um karlmennsku og jafnréttismál óþægileg. Segist hann vera jafnvel stressaðri við að segja eitthvað vitlaust þegar hann tekur viðtal við Hjálmar á Stígamótum en Ólaf Ragnar Grímsson þáverandi forseta. Anna Marsý segist kannast við þetta líka en í samhengi við málefni þeldökks fólks og er hrædd um að klúðra því eða segja eitthvað vitlaust. „Okkur á að líða smá óþægilega og það á að vera allt í lagi“ segir Anna Marsý „því annars er maður að klúðra einhverju“.

1.png

Þáttur númer 37 í hlaðvarpinu Karlmennskan er ekki um pólitískar skoðanir dagskrárgerðafólks á RÚV heldur um fjölmiðlun, „hlutleysi“ og vald frá sjónarhorni og reynslu Andra Freys Viðarssonar og Önnu Marsibil Clausen.

Umsjón: Þorsteinn V. Einarsson

Intro/outro: ON (instrumental) - Jói P. og Króli

Þátturinn var tekinn upp í stúdíó Macland og er í boði Veganbúðarinnar og The Body Shop.