Thorsteinn V. Einarsson Thorsteinn V. Einarsson

#70 „Það er verið að fylgjast með ykkur“ - Edda Falak og Ólöf Tara

Edda Falak stjórnandi hlaðvarpsins Eigin konur og Ólöf Tara stjórnarkona í Öfgum hafa verið ansi áhrifamiklar undanfarna mánuði og að mörgu leiti leitt aðra bylgju metoo og þær samfélagshræringar, ef svo má segja, sem orðið hafa undanfarna daga og vikur.

Við settumst niður og veltum fyrir okkur hvort nú værum við að horfa fram á raunverulegar breytingar, alvöru afstöðu valdafólks og fyrirtækja eða hvort meintir gerendur muni bara fara að rúlla til baka í makindum sínum og jafnvel með árásum á þolendur og baráttufólk.

Edda Falak og Ólöf Tara lýsa upplifun sinni af akívisma og tilraunum fólks til að þagga niður í þeim en þær lýsa líka væntingum sínum til þess að hið opinbera og fyrirtæki verji raunverulegu fjármagni í baráttu gegn ofbeldi, bæði til að mæta afleiðingum þess en einkum til að fyrirbyggja frekara ofbeldi.

Umsjón: Þorsteinn V. Einarsson

Músík: Mr. Silla - Naruto (án söngs)

Þátturinn er í boði Veganbúðarinnar, The Body Shop, Dominos og bakhjarla Karlmennskunnar.

Read More
Thorsteinn V. Einarsson Thorsteinn V. Einarsson

#68 „Feðraveldið hafnar ekki tækifæri til að sparka í konur“

Hildur Lilliendahl er brautryðjandi í íslensku samfélagi og femínískur byltingaleiðtogi sem á stóran þátt í að varpa ljósi á og hreyfa við djúpstæðri kvenfyrirlitningu og karllægni. Það er engin spurning að hennar barátta hefur skapað aðstæður sem síðan hafa leitt af sér allskonar misstórar byltingar síðustu árin. 

Þakkirnar sem Hildur hefur fengið fyrir sitt framlag til jafnréttis hafa þó aðallega verið í formi niðurlæginga, árása, hótana og fyrirlitningar. Óumbeðið varð Hildur hættulegasti óvinur feðraveldis á einni nóttu og í kjölfarið nokkurskonar holdgervingur femínismans í augum ansi margra Íslendinga. Ummæli sem hún lét aldrei frá sér, um tjaldhæl, hafa síðan verið eignuð henni og stöðugt notuð til að níða og niðurlægja.

Við ræðum málefnið sem triggerar Hildi hvað mest, áhrifin sem óumbeðin smellifréttamennska, hótanir og andúð hefur haft á líf hennar, konur sem hata konur, hvaða áskoranir eru mikilvægastar að yfirstíga í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi og ýmislegt fleira.

Veganbúðin, Dominos, The Body Shop og bakhjarlar Karlmennskunnar bjóða upp á þennan þátt.

Umsjón: Þorsteinn V. Einarsson / Músík: Mr. Silla - Naruto (án söngs)

Read More
Thorsteinn V. Einarsson Thorsteinn V. Einarsson

Vinsælustu hlaðvarpsþættir Karlmennskunnar 2021

Rétt rúmlega einn þáttur kom út að meðaltali í hverri viku á árinu 2021 og eins og gengur, voru sumir þættir vinsælli en aðrir. Án þess að hafa lagst í djúpa greiningarvinnu virðist nokkuð augljóst að það sem fólk vill hlusta á er reynsla og upplifun fólks, frekar en greiningar, skýringar eða álit sérfræðinga. Kemur kannski ekki á óvart en eru ákveðin vonbrigði, því ég hef talað við svo marga klára sérfræðinga sem hafa miðlað dýrmætri þekkingu sinni.

Markmið hlaðvarpsins verður þó áfram að varpa ljósi á misrétti, skýra birtingamyndir karlmennsku, greina orðræðu og fleira sem tengist jafnrétti í víðu samhengi. Miðað við viðbrögðin er þó spurning hvort meiri þungi ætti að vera á fólk með reynslu sem það er tilbúið til að opna sig með.

Eftirfarandi eru vinsælustu hlaðvarpsþættir Karlmennskunnar árið 2021.

#43 „Kvenlegir menn munu ekki erfa guðs ríki” - Birgir Fannar

Grímulaus kvenfyrirlitning, þolendaskömmun og djúp ást á karlmanninum sem höfuð fjölskyldunnar einkenndi vinsælasta viðmælanda síðasta árs. Vinsældir hans fólust sennilega frekar í hve hressilega fólki blöskraði frekar en eitthvað annað.

#9 Mental load: Hjónin Hulda og Þorsteinn

Þáttur frá 2020 varð næstvinsælastur á árinu en þarna má segja að ég hafi berskjaldað sjálfan mig og hversu þunga byrði Hulda, konan mín, hefur þurft að bera á heimilis- og fjölskylduhaldinu.

#60 Hreinsunareldur sem brenndi þolendur - Þóra Arnórsdóttir ritstjóri Kveiks

Vægast sagt umdeildur Kveiks-þáttur með einhliða frásögn manns sem sent hafði myndir af typpinu á sér til ungra stúlkna og gagnrýnislaus umfjöllun um „slaufun” samfélagsins á honum, var hlandblaut tuska í andlit þolenda. Þóra var beðin um skýringar og endurlit á umfjöllunina sem mörgum þótti meingölluð.

#46 „Ég er smá homophobic sjálfur” - Bassi Maraj

Raunveruleikaþátta- og poppstjarnan Bassi Maraj spjallaði um allt og ekkert í einum kaótískasta hlaðvarpsþætti Karlmennskunnar.

#30 „Bros before hoes” - Einar Ómars og Sólborg Guðbrands

Vinir mínir, Einar Ómars og Sólborg Guðbrands, komu í spjall þegar önnur bylgja metoo var að rísa. Einlægt spjall um mörk, klám, forréttindi og karlakúltúr.

#49 „Það er búið að þagga niður milljón svona mál” - Pétur Marteinsson fyrrverandi atvinnu- og landsliðsmaður í knattspyrnu

KSÍ málið var í hæstu hæðum og mikil umræða um klefamenningu og fótboltamenn sem beita ofbeldi. Pétur Marteins fyrrverandi landsliðsmaður og atvinnumaður í fótbolta veitti innsýn í ferilinn sinn og mat stöðuna sem var þá í gangi.

Read More
Thorsteinn V. Einarsson Thorsteinn V. Einarsson

#63 „Viðurkennum að það geti ekki hver sem er leyst þessi mál“

Sérfræðingarnir úr pallborði Kveiks í hreinsunarþætti eftir Hreinsunareld Þóris Sæmundssonar eru viðmælendur í nýjasta hlaðvarpsþætti Karlmennskunnar. Skiptar skoðanir eru á gagnsemi umfjöllunar Kveiks en ljóst er að sérfræðingarnir komu ekki öllu frá sér sem þeir vildu og jafnvel komu aðeins hálfkláraðri hugsun frá sér. Enda hafa sérfræðingarnir úr pallborðinu gagnrýnt þáttinn sem þau tóku þátt í. Sum þeirra talað um of lítinn tíma, of leiðandi spurningar Þóru, þau hefðu ekki komið öllu að eða ekki nógu rétt haft eftir þeim og síðan mátti skynja að sérfræðingarnir væru innbyrðis ósammála.

Markmið 63. hlaðvarpsþáttar Karlmennskunnar er að draga fram þau atriði sem sérfræðingarnir brunnu inni með, það sem þau hefðu viljað koma betur að eða skýra nánar. Einnig að kryfja nánar atriði sem þarf að ræða og skýra í tengslum við gerendur, þolendur og ofbeldi. Hvað t.d. átti Katrín við, þegar hún talaði um að það vantar „handrit“ fyrir gerendur? Hvers vegna voru þau ósátt við þáttinn í heild sinni?

Ólöf Tara Harðardóttir, Katrín Ólafsdóttir og Þórður Kristinsson áttu klukkutíma samtal áður en við bjölluðum stuttlega á Sóley Tómasdóttur. Þú getur hlustað á þáttinn í spilaranum eða á helstu hlaðvarpsveitum.

Read More
Thorsteinn V. Einarsson Thorsteinn V. Einarsson

Réttlæti?

Í umræðu um kynferðisofbeldi hefur bersýnilega komið í ljós að þolendur eiga erfitt með að ná fram réttlæti. Þegar konur, sem eru að megninu til þolendurnir, opna á sára reynslu sína og jafnvel nafngreina gerendur mætir þeim orðræða réttarkerfisins. „Dómstóll götunnar“, „saklaus uns sekt er sönnuð“ og talað um „mannorðsmorð“. Rannsóknir hafa hins vegar ítrekað dregið fram að réttarkerfið er illa hannað til að taka á kynferðisofbeldi og nær sjaldnast að tryggja réttlæti í hugum brotaþola.

Þegar stofnanir sem eiga að tryggja réttlæti eru illa í stakk búnar til þess, kemur upp erfið staða þar sem þá þarf að leita annara leiða. Afrakstur áratugalangrar baráttu þolenda kynferðisbrota fyrir viðurkenningu, sem og tækninýjungar eins og samfélagsmiðlar, hefur leitt til þess að þolendur geta loks í auknum mæli stigið fram og talað um reynslu sína af ofbeldi og þannig krafið samfélagið um stuðning og þrýst á gerendur að taka ábyrgð á gjörðum sínum.

Viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa. Ýmist upplifa þolendur stuðning eða mótbyr. Mótbyr sem tekur á sig ýmsar myndir. Meintir gerendur ýmist hóta lögsóknum eða hefja einkarefsimál gegn þolendum fyrir að tjá sig opinberlega, eða fara í mál gegn atvinnurekendum ef þeir hafa misst starfið í kjölfarið. Einnig ber á gerendameðvirkni, hannúð og þolendaskömm á meðal ýmissa aðila á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum. 

Félagslegt réttlæti er ekki síður mikilvægt en lagalegt réttlæti. Rannsóknir hafa sýnt að lykilþættir í hugmyndum þolenda um réttlæti er að upplifa stuðning frá nærumhverfi sínu og samfélaginu og að gerendur taki ábyrgð á gjörðum sínum. Mikilvægt er að flækjast ekki um of í hugtökum réttarkerfisins þegar kemur að félagslegu réttlæti. Hin félagslega krafa er að við sem vinir, vinkonur, fjölskyldumeðlimir, samstarfsmenn, atvinnurekendur gerenda og þolenda styðjum þolendur í leit sinni að viðurkenningu og sköpum pressu á gerendur til að taka ábyrgð á gjörðum sínum. Að draga ekki úr ábyrgð þeirra eða gera lítið úr brotum. Það er liður í því að þroskast og búa til betra samfélag þar sem kynferðisofbeldi þrífst ekki. Fyrst þolendur svo gerendur. (Texti skrifaður með Hildi Fjólu Antonsdóttur doktor í réttarfélagsfræði / teikning Anna Shumeeva).

GERENDUR FÁ AFSLÁTT EN HVAÐ FÁ ÞOLENDUR?

Í þessum anda var nýjasti hlaðvarpsþáttur Karlmennskunnar þar sem baráttukonurnar Ólöf Tara Harðardóttir meðlimur í Öfgum og Fjóla Heiðdal veittu innsýn í upplifun þolenda og baráttukvenna á umræðunni um kynferðisofbeldi og gerendur. Gerendamiðaður fókus sem oft er litaður af gerendameðvirkni, hannúð og gagnrýni á þolendur og baráttufólk gegn ofbeldi hefur sannarlega triggerandi áhrif á þolendur. Eins og Fjóla Heiðdal lýsti áhrifum umræðunnar á sig, verandi þolandi ofbeldis: „Að fá allar þessar frásagnir upp aftur og sjá hvað við höfum náð fram litlu réttlæti og sjá hvað mótstaðan er mikil vekur upp áfallastreituröskunar einkenni. Ég er með stoðkerfisvanda og mígrenisköst, viðkvæm og lítil í mér. Þetta hefur áhrif á hvernig ég sinni vinnunni minni, háskólanáminu mínu og börnunum mínum. Þetta litast út í allt mitt líf, þetta eru ekki bara andleg einkenni heldur er ég actually með líkamleg einkenni við umræðunni.“.

Í þættinum veltum við því fyrir okkur við hverja sumir „sérfræðingar“ eru að tala þegar talað er um að „baráttan þurfi að vera málefnaleg“ og þegar spurt er hvort „taka eigi menn af lífi“. Er þá verið að styðja gerendur til að axla ábyrgð og ýta undir pressuna sem byltingar kvenna hafa skapað á gerendur að líta í eigin barm og gangast við gjörðum sínum? Eða er eingöngu verið að beina sjónum að þolendum og baráttufólki og fá það til að hætta að tala um reynslu sína og ofbeldið? Eru „sérfræðingarnir“ og áhugafólkið, sem fær gjarnan allt of mikið pláss í umræðunni, jafnvel að vinna þolendum og samfélaginu meiri skaða með þessum athugasemdum?

Þátturinn er tekinn upp í stúdíó Macland og er í boði Dominos, Veganbúðarinnar, The Body Shop og bakhjarla Karlmennskunnar (karlmennskan.is/styrkja).

Read More
Thorsteinn V. Einarsson Thorsteinn V. Einarsson

#59 „Síðastur í markið er hommi“ - Ástrós Anna Klemensdóttir

Í ljósi fregna að Josh Cavallo ástralskur fótboltamaður kom opinberlega út úr skápnum fékk ég Ástrósu Önnu meistaranema í félagsfræði til samtals við mig. Við ræddum um áberandi skort á samkynhneigðum fótboltamönnum. Þá fjallar Ástrós Anna um rannsókn sem hún gerði meðal íslenskra fótboltamanna sem varpar ljósi á þær hómófóbísku hugmyndir sem þekkjast innan greinarinnar, hvernig skaðleg orðræða, kvenfyrirlitning og ríkjandi karlmennsku er viðhaldið innan menningar fótboltans hér á landi. Vonin er þó að yngri kynslóðin sé færari í fjölbreytileikanum og hugsanlega að hún hreyfi við ríkjandi karlmennsku hugmyndum. Það eiga „allir að geta æft fótbolta“ eins og Ástrós Anna segir. 

Umsjón: Þorsteinn V. Einarsson

Eftirvinnsla: Unnur Gísladóttir

Tónlist: Mr. Silla - Naruto (instrumental)

Þátturinn er tekinn upp í stúdíó Macland og er í boði Dominos, Veganbúðarinnar og The Body Shop og bakhjarla Karlmennskunnar (karlmennskan.is/styrkja).


Tilvísanir úr viðtalinu

Mín. 05:50

„Út frá tölfræði, þá bara gengur það ekki upp að það sé enginn leikmaður í efstu deild á heimsvísu samkynhneigður“.


Mín. 06:50

„Þú þarft að standa þig og samræmast ákveðinni ímynd, þessari karlmennsku fótbolta ímynd og ég ímynda mér að ef þú ert samkynhneigður eða sért einhvern vegin að burðast með kynhneigð þína í hljóði þá sé erfitt að vera í þessu umhverfi“.


Mín. 07:11

„Það eru dæmi um leikmenn sem hafa hætt í fótbolta út af því að þeir þurftu bara að velja, bara langar mig að lifa tvöföldu lífi og vera í fótbolta en samt samkynhneigður og ekki segja neinum eða langar mig bara að vera ég sjálfur?“

Mín. 09:00

„Orðræðan er rosalega sterk afl í fótbolta, hún birtist meðal leikmanna, hún birtist hjá þjálfara og meðal stuðningsmanna“.


Mín. 12:55

„Það er svona ákveðin klefamenning sem á sér stað, þar sem að leikmenn eru að slá um sig oft, tala um stelpur og það er ákveðið svona sjomlatal“.


Mín. 14:16

„Til dæmis tal um andleg veikindi eða bara kvíða, þunglyndi, eða hugsanlega að þú sért á einhvern hátt „öðruvísi“, að þú sért ekki gagnkynhneigður þá ertu hugsanlega að gefa á þér veikan blett“.


Mín. 20:09

„Það var sagt ekki spila eins og kerling, þú veist maður var einhvern vegin bara hvað 7, 8 ára þegar maður heyrði talað svona það er slæmt að spila eins og stelpa. Það er einhver vegin bara eitthvað sem maður sætti sig við, svo þegar maður verður eldri hugsað maður „af hverju““.

Mín. 21:22

„Kvennalandsliði á Íslandi er bara miklu betra en karlalandsliðið. Ég veit ekki alveg hvernig það er hægt að gera lítið úr körlum á kostnað kvenna, ég bara skil ekki alveg hvernig það gengur upp?“


Mín. 23:55

„Karlmennska er ekki eitthvað klippt og skorin og þeir eru ekki allir einhverjir „macho man“ sem hafa ekki tilfinningar, ég held að þetta brjótist fram út af því þeir eru búnir að vera að reyna að samræmast einhverjum ráðandi karlmennsku hugmyndum. En þeim þykir vænt um hvorn annan og þeim langar að sýna það og þá brýst fram svona hegðun, einhverskonar væntumþykja eða eitthvað grín eða persónusköpun“.

Mín. 29:55

„Jafnréttisumræðan innan knattspyrnusambandsins hefur ekki verið til staðar og íþróttahreyfingin miðar að því að vera aðgengileg öllum, hún á að vera það. Það á hver sem er að geta æft fótbolta.“


Read More
Thorsteinn V. Einarsson Thorsteinn V. Einarsson

#55 „Já, þetta er varaliturinn hennar mömmu“ - Jón Gnarr

„Ég hef alla tíð verið frekar ringlaður og svo er ég bullukollur og rugludallur. Ef það er einhver hæfileiki sem ég hef þá er það þvaður. Ég get þvaðrað endalaust.“ segir Jón Gnarr meðal annars í samtali sem átti að vera 30 til 45 mínútur um kallakalla og vináttu en leiddist út í 75 mínútna spjall um allskonar. Enda er ekki auðsótt að leiða samtal við Jón Gnarr inn á eina braut. 

Samtalið fer þó á þær brautir sem ég vildi snerta á þar sem við ræddum um kallakallinn sem hefur stundum af honum völdin, hvernig það er að vera hvítur miðaldra karlmaður, afahlutverkið, foreldrahlutverkið, karllægni íslenskunnar, karlmennsku og upphandleggsvöða, karldýrkunina í okkar samfélagi, móðurmissinn, borgarstjórnartímann og vináttu svo fátt eitt sé nefnt.

Þátturinn er tekinn upp í stúdíó Macland og er í boði Dominos, Veganbúðarinnar og The Body Shop og bakhjarla Karlmennskunnar (karlmennskan.is/styrkja).

Umsjón: Þorsteinn V. Einarsson

Intro: Futuregrapher

Outro: Jói P. og Króli - ON (instrumental)

Read More
Thorsteinn V. Einarsson Thorsteinn V. Einarsson

#54 „Sjáið þetta ógeð hérna“ - Aron Daði Jónsson og Arna Magnea Danks

Ég hafði lengi frestað því að taka upp þennan hlaðvarpsþátt eða fara inn í transmálefni, einfaldlega vegna þess að ég var svo hræddur um að spyrja heimskulegra spurninga, koma upp um fordóma mína og fáfræði og vera meiðandi. Spyrja meiðandi, klúðurslegra spurninga. Þess vegna reyndi ég að undirbúa mig vel, átti samtal við ráðgjafa hjá Samtökunum 78 og tók forviðtal við annan viðmælandann minn. 

Markmiðið mitt var að öðlast betri skilning á trans og í leiðinni nýta mitt platform til að varpa ljósi á reynsluheim tveggja transeinstaklinga. Reyna að skilja hvernig upplifun það er að tilheyra ekki því kyni sem þér var úthlutað við fæðingu. Að vera ekki sískynja eins og ég, eitthvað sem ég tek sem gefnu enda valdi ég ekki kyn mitt. Sama er að segja um trans, þú velur ekki kyn þitt og þetta snýst ekki um að skilgreina sig eða upplifa neitt. Þetta er spurningin um hver þú ert. 

Aron Daði og Arna Magnea tala auðvitað ekki fyrir hönd allra transeinstaklinga en þeirra reynsla, viðhorf og sjónarhorn veita okkur, sem ekki erum trans, mikilvæga innsýn sem vonandi slær á fordóma sumra okkar. Því transfóbía, útilokun og ofbeldi þekkist svo sannarlega í okkar samfélagi og hindrar sum í að fá að vera þau sem þau eru.

Þátturinn er tekinn upp í stúdíó Macland og er í boði Dominos, Veganbúðarinnar, The Body Shop og bakhjarla Karlmennskunnar (karlmennskan.is/styrkja). 

Umsjón: Þorsteinn V. Einarsson | Intro/Outro: Futuregrapher

Read More
Thorsteinn V. Einarsson Thorsteinn V. Einarsson

„Stóra mómentið er núna“ - Sonja Ýr Þorbergsdóttir formaður BSRB

„Í kjarasamningum upp úr 1900 eru launataxtar fyrir karla og svo fyrir konur og unglingsstráka, sem þóttu vera á pari.“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir ný-endurkjörin formaður BSRB um sögulegar rætur launamisréttis á Íslandi. Við Sonja ræðum kynbundinn launamun og hvernig störf eru metin á ólíkan hátt þannig að störf þar sem konur eru í meirihluta eru gjarnan metin lægra til launa. Sonja telur að nú sé tíminn til að hækka laun kvennastétta og vekur athygli á tillögum stjórnvalda til aðgerða sem nú eru í samráðsgátt. 

Við ræðum norrænu velferðina sem byggð er á baki láglaunakvenna, launataxta og gildismat starfa og þær aðgerðir sem ráðast þarf í til að hækka laun og leiðrétta kynbundinn launamun.

Þátturinn er í boði Dominos, Veganbúðarinnar og The Body Shop og er tekinn upp í stúdíó Macland.

Umsjón: Þorsteinn V. Einarsson

Intro: Futuregrapher

Outro: Jói P. og Króli - ON (instrumental)


Read More
Thorsteinn V. Einarsson Thorsteinn V. Einarsson

Forréttindin að tilheyra fótboltaklefanum

Pétur Marteinsson fyrrverandi atvinnumaður og landsliðsmaður í fótbolta var viðmælandi 49. hlaðvarpsþáttar Karlmennskunnar. Spjallið í þættinum, en kannski ekki síður spjallið okkar eftir að slökkt var á upptöku og síðan viðbrögð fólks eftir útgáfu þáttarins fékk mig til að hugsa fast um forréttindi. 

Forréttindi

Ég taldi mig lengi vel ekki búa við nein forréttindi enda fannst mér jafnréttismál ekki koma mér við og karlmennska var hugtak sem ég hafði aldrei velt fyrir mér fyrr en ég var að nálgast þrítugt. Hægt og bítandi hef ég lært meira um forréttindin sem fylgja því að vera karlkyns og hvað þá hvítur íslenskur ófatlaður gagnkynhneigður og sískynja (tilheyri því kyni sem mér var úthlutað við fæðingu). Forréttindi sem eru algjörlega sjálfsköpuð, það er að segja ég gerði ekkert nema fæðast í þennan heim til að njóta þessara forréttinda. Ef við síðan bætum ofan á þessi forréttindi að ég var ágætur í fótbolta og spilaði með meistaraflokkum, naut félagslegrar velsældar, á góða vini, þokkalega tengdur, menntaður og bý við fjárhagslegt öryggi þá er auðvelt að sjá að öll þessi forréttindi greiða götu mína hvar sem er og veita mér tækifæri sem önnur eiga erfitt með að öðlast. Forréttindin skapa aðstöðumun milli mín og annarra sem deila ekki sömu forréttindum með mér þannig að ég er líklegri til að geta nýtt hæfni mína og getu. Það eru nefnilega forréttindi, í sjálfu sér, að geta notið tækifæra. Það er ekki þar með sagt að þótt ég hafi fæðst með forgjöf og áunnið mér enn frekari forréttindi að líf mitt sé þar með laust við erfiðleika, áföll og mótbyr. Það þýðir bara að hver ég er, hvaðan ég kem og hvernig ég er mun aldrei vera ástæðan fyrir þeim erfiðleikum eða mótbyr. Vegna þess að samfélagið vill mig, hampar mér, vill hlusta á mig og tekur frekar mark á mér en t.d. öðrum körlum, konum og kynsegin. Þegar ég segi mér, þá á ég við einstaklinga sem eiga forréttindin sameiginleg með mér og það eru einkum menn eins og ég. Og Pétur Marteinsson.

Áhrifin

Þegar meðgjöfin er þessi þá þarf ég, og menn eins og ég, ekkert að gera neitt brjálæðislega merkilegt eða leggja neitt rosalegt af mörkum til að annað fólk upplifi eða sjái það sem stórvirki. Án þess að ég vilji gera lítið úr viðmælanda mínum, Pétri Marteinssyni, eða sjálfum mér þá var spjallið okkar ekkert stórkostlega merkilegt. Við vorum bara tveir menn sem deila slatta af forréttindum að spjalla um ofbeldi, mismunun og forréttindi. Eitthvað sem konur hafa öskrað í áratugi og bent á margsinnis og skapað byltingar til að reyna að fá okkur til að sjá, skilja og gera eitthvað í. Þótt ég hafi markvisst grafið undan félagslegri stöðu minni meðal karla, með því einfaldlega að gagnrýna íhaldssamar karlmennskuhugmyndir með femínískum aðferðum, þá er Pétur Marteinsson fyrrverandi atvinnumaður og landsliðsmaður í fótbolta. Það að hann taki einfaldlega þá afstöðu og segi að við, karlar, ættum að hlusta á konur og þolendur ofbeldis og taka ofbeldi alvarlega fékk fólk til að heyra. Líkt og hann sé frekar marktækur en allar konurnar og femínísku róttæku karlarnir. Að búa við öll þessi forréttindi fær fólk ekki bara til að hlusta frekar á þig heldur greiðir götu þína í raun hvert sem þú ferð eða hvaða leið þú velur. Þetta þekki ég eftir að hafa byrjað að tala um karlmennsku og jafnréttismál og þetta þekkir Pétur eftir að hafa stigið úr atvinnumennsku í fótbolta og í viðskiptaheiminn. Að hafa bakpokann stútfullan af forréttindum er heldur betur hreyfiafl til áhrifa og frekari tækifæra.

Fótboltaklefinn

Þá komum við að fótboltanum og klefanum. Eftir þónokkra ígrundun og spjall við Pétur, þá get ég ekki munað eftir því að klefarnir sem ég var í, hafi verið baneitraðar karlrembustíur. Þar var einmitt rík samstaða, kærleikur (upp að vissu marki), eining og góður andi. Lang oftast. Það var menningin og stemningin sem sóst var eftir. Að tengjast, styrkja böndin, stilla okkur saman og vera liðsheild. Til að ná árangri. Og það er kannski akkúrat það sem er varasamt og gagnrýnivert. Stórir hópar af strákum og mönnum sem flestir eiga það sameiginlegt að vera stútfullir af forréttindum, sjálfsköpuðum og áunnum, sem tengjast styrkum böndum. Passa hvern annan, liðið og liðsheildina. Ímyndina og orðsporið. Stórir hópar af mönnum sem bera eftirsóknarverðustu karlmennskuna, en sjá það tæplega sjálfir. Sjá tæplega að þeirra hópur er stórkostlega einsleitur forréttindahópur. Það kemst ekkert hver sem er inn í klefann. Þú þarft að taka upp tiltekin viðhorf, búa yfir tiltekinni hæfni og gerast hluti af költinu. Annars áttu lítinn sjéns. Það er kannski þess vegna sem ég, og Pétur, minnumst klefans með hlýhug og án skaðlegrar karlmennsku. Af því að við vorum inni í kjarnanum, möttlinum sjálfum. Samdauna kúltúr sem byggir á aðgreiningu, samkeppni, yfirlætisfullri karlmennsku, hörku og aga. Þegar þú ert kominn inn í klefann þá sér klefinn um þig svo lengi sem þú aðlagast honum. Þótt það hafi ekkert endilega verið meðvitað en sjálfsmynd mín, þangað til ég hætti í fótbolta, litaðist nánast að öllu leiti af því að ég væri fótboltamaður. Ég var ekkert bara fótboltamaður á æfingum og þegar ég spilaði fótbolta. Ég var „fótboltamaður“ í skólanum, vinnunni, heima hjá mér, á internetinu og allsstaðar. En ég var bara áhugamaður, ég var ekki landsliðsmaður né atvinnumaður. Ég var ekkert frægur. Samt naut ég gífurlegra forréttinda fyrir það að bera þessa karlmennsku og ímynd. Ef ég heimfæri mína reynslu og innsýn síðan á landsliðsmenn og atvinnumenn í fótbolta, poppstjörnur og aðra menn sem njóta ímyndar og stöðu sem er dýrkuð í okkar samfélagi þá á ég auðvelt með að sjá hvernig sú staða getur greitt götu ofbeldis.

Ofbeldi

Nú er ég ekki að segja að forréttindafullir menn, poppstjörnur, fótboltamenn og fleiri, séu allir ofbeldismenn. Alls ekki. Hins vegar greiðir hin dýrkaða staða götu ofbeldis á þann hátt að jafnvel þeir sjálfir sjá það ekki. Sér í lagi þegar forréttindin eru þeim sjálfum illsjáanleg og áhrifin sem forréttindin hafa á þá sjálfa og aðra í kring. Þetta skapar ójöfn valdatengsl. Forréttindin, dýrkaða staðan í bland við forrétttindafirringu (að sjá ekki forréttindin og ójöfnu valdatengslin) er eitraður kokteill.  Slíkt getur skekkt viðhorf bestu manna, aftengt siðferðiskenndina, víkkað út mörkin og greitt götu markaleysis og ofbeldis. Eðlilega, ef þú ert mestur, bestur og á leiðinni hærra hvað ætti að stoppa þig?

Ég dreg ekki úr ábyrgð þessara einstaklinga á hegðun sinni og viðhorfum. Ég er ekki að segja að þeir séu bara fórnarlömb samfélagsins eða gerendur ofbeldis séu einstaka skemmd epli. Ég er að segja að þegar gildismat samfélagsins er með þeim hætti sem það er og strákar komast undan því að taka ábyrgð á sjálfum sér, eigin viðhorfum og hegðun þá kemur ofbeldið mér ekki á óvart. Það kemur mér bara alls ekkert á óvart.

Gildismatið

Forréttindi fótboltastráka og almenn forréttindi karla stafa af gildismati sem metur öll sem ekki falla að ráðandi valdakerfum sem óæðri, minni máttar og minna virði. Konur, fatlaðir, hinsegin, brúnir, útlendingar, femínistar og kvenlegir karlar eru ekki jafn hátt skrifuð og „alvöru menn“. Sjálfsköpuðu forréttindin sem auka líkur á áunnum forréttindum, tækifærum og lífsgæðum falla einkennilega vel að fótboltastrákum. Fótboltamönnum. Alvöru mönnum. Þegar allt ýtir undir að þú sért geggjaður, frábær, stórkostlegur, fyrirmynd og góður strákur þá hlýtur allt sem þú gerir að vera frekar frábært. Ég sé hversu auðvelt er að trúa því. Þegar misrétti kemur þér ekki við, ofbeldi er framið af vondum skrímslum, femínistar eru vælandi kellingar og kvenlegir karlar sem þrá að öðlast þann status sem þú hefur þá kemstu undan því að horfast í augu við sjálfan þig. Horfast í augu við hve stór hluti af vandamálinu þú ert. Af því þú ert svo flottur og frábær. Vandamálið er bara allar þessar helvítis vælandi kellingar, femínstar og karlaumingjar. Þú vilt bara fá að vera í friði og spila fótbolta. Slæda fortíðinni undir teppið án þess að gangast við henni. Vinir þínir eru sammála þér, þjálfarinn, aðstandendur þínir og meira að segja samfélagið, fyrir utan athyglissjúkar druslur og ófullnægðar miðaldra kellingar. 

Þökk sé þessum „athyglissjúku druslum“ og „ófullnægðu kerlingum“ þá er samfélagið og gildismatið að breytast. Það mun breytast og er að breytast. Það er ótrúlega auðvelt að taka þátt í breytingunni, þótt það kunni að vera óþægilegt að brjóta örlítinn odd af oflætinu sem forrétindin hafa fært þér. Ef við fengjum að sjá örlítinn brodd af auðmýkt, hlustun og skilning af hálfu þeirra sem gagnrýnin beinist að þá er ég viss um að okkur myndi takast hraðar að breyta því gildismati sem styður, dylur og nærir ofbeldismenningu. En á meðan varðhundar ráðandi karlmennskunnar og feðraveldis í búningi sjálfskipaðra fulltrúa réttlætisins og hins sanna sjónarhorns berja á þolendum og afvegaleiða umræðuna munu breytingarnar taka lengri tíma. Þá munu gerendur ofbeldis komast undan því að axla ábyrgð. Handhafar og holdgervingar ráðandi karlmennskunnar, hinnar eftirsóknarverðustu tegundar karlmennsku, munu geta frestað því að horfast í augu við eigin forréttindi, forréttindafirringu og tengsl þess við misrétti og ofbeldi. Þolendur ofbeldis og þau sem benda á misréttið verða áfram talin öfgafull, hatursfull, eyðileggjandi og ofbeldisfull. En það viðhorf endurspeglar akkúrat gerendameðvirknina, forréttindafirringu og gildismatið sem byrjað er að kvarnast upp úr. Hvernig væri að við, forréttindafullir karlar, litum inn á við, hlustuðum og tækjum mark á femínískri gagnrýni og tækjum höndum saman með þeim sem benda okkur á inngrónar skekkjur samfélagsins? Ég er sannfærður um að ef við höggvum í sprungur feðraveldis og rotið gildismat samfélagsins með þolendum, femínistum og mannréttindasinnum verður ávinningurinn öllum til hagsbóta. Nema kannski þeim sem vilja fela og styðja ofbeldi.

Skrifað af ÞVE

Read More
Thorsteinn V. Einarsson Thorsteinn V. Einarsson

ÞÁTTUR 47: Þegar barn er beitt kynferðisofbeldi

Í nýjasta hlaðvarpsþættinum ræði ég við konu undir dulefninu Aníta sem er brotaþoli og aðstandandi brotaþola, en barnið hennar var beitt kynferðisofbeldi. Í þættinum fáum við stutta frásögn af reynslu og vangaveltum Anítu sem kallar eftir frekari umræðu um aðstandendur brotaþola. Tilurð þáttarins má rekja til þessara skilaboða sem Aníta sendi mér í gegnum samfélagsmiðla Karlmennskunnar:

„Sæll Þorsteinn og takk fyrir mjög fræðandi og skemmtilega podcast þætti.

Ég er búin að binge hlusta á þá næstum alla. Verandi sjálfstæð móðir til margra ára og með ýmsa reynsluna á bakinu langar mig að stinga upp á topic fyrir podcastið. Var að klára þátt þar sem ónafngreind kona ræddi um narsískan fyrrverandi, þar sem hún gat í rauninni verið að tala um mitt fyrra hjónaband. Þetta eiginlega er ástæðan fyrir að eg skrifa til þín, fannst þetta svo athyglisvert.

Í ljósi allrar umræðunnar um kynferðisofbeldi, gerendur og gerendameðvirkni, skrímslavæðinguna, þolendur og allt sem því tengist finnst mér vanta umræðuna um aðstandendur þolenda, og þá kanski sérstaklega foreldra barna sem lent hafa í kynferðisofbeldi. Hvernig kemst maður yfir eða lifir með þessa lifsreynslu? Er eitthvað sem heitir nógu langur dómur? Hvernig heldur maður áfram þrátt fyrir samviskubitið sem fylgir því að hafa verið í sambandi við mann sem brýtur á barni manns? Er hamingja eftir að barninu manns var nauðgað? Eða bara allar hinar spurningarnar sem veltast um í höfðinu á mér. Á maður einhverntiman eftir að treysta manni aftur?“

Í samráði við Anítu leitaði ég til Steinunnar Gyðu- og Guðjónsdóttur talskonu Stígamóta til að fá hennar sjónarhorn á upplifun og reynslu Anítu. Steinunn segir að mikilvægt sé að aðstandendur fái stuðning og bregðist rétt við þegar, sérstaklega börn, segja frá erfiðri lífsreynslu: „Að vera aðstandandi getur verið erfitt og flókið og það er mikilvægt að fá stuðning. Það er mikilvægt að foreldrar barna sem segja frá kynferðisofbeldi fái stuðning og ég vil minna á að sá stuðningur stendur til boða hjá Stígamótum [...] Við höfum verið með neyðartíma fyrir aðstandendur því það skiptir svo miklu hvernig fyrstu viðbrögð eru.“ Steinunn segir að fyrstu viðbrögð geti skipt sköpum í því hvernig brotaþola takist að vinna úr afleiðingum brotsins. 

Skrímslin sem beita ofbeldi

Gerandi Anítu er sá sami og beitti síðan dóttur hennar kynferðisofbeldi. Aníta lýsir gerandanum sem vel menntuðum manni sem hafi almennt komið vel fyrir og sumum hafi jafnvel þótt fjarstæðukennt að hann gæti framið jafn hræðilegt ofbeldi og raunin er. „Þegar við tölum um að afskrímslavæða þá er það til að koma því inn að við getum trúað því að einhver rosa fínn gaur geti beitt ofbeldi. Til þess að hjálpa okkur að trúa því að allskonar menn geti beitt ofbeldi þannig að brotaþolar standi ekki þarna úti og tali um ofbeldið sitt og enginn trúir.“, segir Steinunn talskona Stígamóta. Anítu er ekki bara hugleikinn stuðningur við aðstandendur brotaþola heldur einnig umræðuna um gerendur og afskrímslavæðingu þeirra. Því í augum Anítu er gerandi hennar og dóttur hennar skrímsli sem hún myndi helst aldrei vilja sjá aftur. „Mér finnst skrímslaumræðan áhugaverð. Eiga menn sem fremja ljót afbrot afturkvæmt í samfélagið? [...] Ef maður tekur þetta persónulega frá eigin reynslu þá nei. En þannig virkar samfélagið ekki. [...] En hvernig á maður að geta óvart rekist á ofbeldismanninn sem braut á barninu þínu í ísbúðinni eða Kringlunni?“, spyr Aníta og segir að sumir virðast einfaldlega vera illa innrædd skrímsli sem eigi sér varla viðreisnar von. Steinunn tekur undir þessi sjónarmið og segir að stundum sé erfitt að skilja hversu vonda hluti sumir geti gert. Steinunn bendir á að „brotaþola má alveg finnast gerandinn vera skrímsli [...] Þegar við erum loksins farin að trúa því að góðir strákar beita ofbeldi þá förum við, af því okkur finnst þetta svo erfitt, að útskýra og réttlæta hvers vegna þeir gerðu þetta. Við þurfum að komast yfir það“.  Steinunn segir að við þurfum að hætta að útskýra, réttlæta og þannig taka ábyrgð gerenda frá þeim. 

Hlustaðu á 47. hlaðvarpsþátt Karlmennskunnar í spilaranum hér fyrir neðan eða á Spotify eða Podcast-appinu.

Aníta gefur innsýn í aðstæður sínar og reynslu af ofbeldi og Steinunn útskýrir algeng viðbrögð aðstandenda brotaþola, hvers vegna mikilvægt er að bregðast rétt við, hvaða þjónustu Stígamót bjóða aðstandendum og flækjurnar í umræðunni um gerendur, skrímsli og afleiðingar ofbeldis. 

Umsjón: Þorsteinn V. Einarsson

Intro/outro: ON (instrumental) - Jói P. og Króli 

Þátturinn er tekinn upp í stúdíó Macland og er í boði Veganbúðarinnar og The Body Shop.


Read More
Thorsteinn V. Einarsson Thorsteinn V. Einarsson

Pistill: Gegnum nálaraugað

„Ég er eiginlega sammála þér en bara ekki aðferðinni“ er setning sem ég hef heyrt svo óteljandi oft um femínískar konur, aðgerðasinna og reyndar um sjálfan mig líka. Mér þætti gaman að heyra hvaða aðferð þessir menn vilja fara sem hafa svona miklar áhyggjur af aðferðafræði femínista og flestra aðgerðasinna.

Að hnýta í aðferðina er ein birtingamynd á þeim ofurkröfum sem gerðar eru til fólks sem vogar sér að beita femínískri og róttækri gagnrýni á samfélagið. Birtingamynd þess hvernig aðgerðasinnar og femínistar eru stöðugt undir smásjáreftirliti. Þar sem þú hatar karla ef þú gagnrýnir karllægni, „drepur“ menn fyrir að tala um (meint) ofbeldi sem þeir eiga að hafa beitt og ef þú lætur glitta í að þú sért mennsk ertu hræsnari og marklaust. Sama hvað, aðferðin sleppur aldrei gegnum nálaraugað og þú ekki heldur. 

Vildi óska að fólk verði jafn mikilli orku í að láta vini sina vita þegar þeir segja eða gera eitthvað óviðeigandi eða meiðandi. Að aðferðafræði ekki-femínista væri mæld  eftir sömu mælistiku og femínista, vegana og aðgerðasinna. En í staðinn fær allt að slæda. Hvað ætli margir sem hafa áhyggjur af aðferðafræði femínista hafi sent skilaboð eða commentað undir hjá þjálfaranum með fitufordómana? Eða sendu skilaboð á karlrembu áhrifavaldinn sem hatar rauðhærða og studdi meintan geranda og gerði lítið úr þolendum? Ég þykist viss um að aðferðafræði þeirra við að gera grín hafi ekki þótt neitt sérstaklega athugaverð.

Ekki misskilja. Ég vill gagnrýni og það er mikilvægt að halda fólki á tánum sem er í áhrifastöðu. Ég er ekki að biðja um meðvirkni eða þöggun, heldur einungis að þið sjáið samhengið. Veltið því fyrir ykkur hvort að aðrir í ykkar lífi eru mældir með sömu mælistiku og fólkið sem beitir femínískri gagnrýni eða krefst ábyrgðar eða aðgerða.

Femínistar, fólkið sem berst fyrir mannréttindum, umhverfissinnar, veganar og aðrir aðgerðasinnar eru breysk og mennsk. Það þarf ekki að koma á óvart. Ég bið bara um sama siðferðisþröskuld fyrir allt fólk, ekki bara fyrir þau sem eru að reyna að gera eitthvað til að bæta heiminn.

Teikning: Herdís Hlíf @herdill.art

Read More
Thorsteinn V. Einarsson Thorsteinn V. Einarsson

PISTILL: Ekki bara vitleysingar og sjúklingar

„Femínismi er það versta sem hefur komið fyrir landið,“ sagði Birgir Fannar í 43. þætti hlaðvarpsins Karlmennskan og hélt síðan áfram í tæpan klukkutíma að lýsa fordómafullum, meiðandi, hatursfullum og kvenfyrirlítandi skoðunum sínum á ýmsum málefnum. Aldrei hafa jafn margir hlustað eins hratt á einn þátt af 45 útgefnum hlaðvarpsþáttum Karlmennskunnar og lang flestum blöskraði afstaða viðmælanda míns.

Dæmigerð viðbrögð

„Þorsteinn hefur fundið lifandi steingerving”, „þessi maður er óþægilega triggerandi”, „vissi ekki hvort ég ætti að hlæja eða gráta” og „er þetta ekki bara andlega veikur einstaklingur?” eru dæmi um viðbrögð fólks við þeim viðhorfum sem Birgir Fannar lýsti. Þótt ég viti ekkert um andlegt ástand viðmælanda míns þá ætti það ekki að gera hann að síðri viðmælanda eða skoðanir hans sjálfkrafa ómarktækar. 

Viðbrögð fólks gefa til kynna að um veikan einstakling sé að ræða eða einstaka frávik. Einhvern steingerving sem grafinn var upp úr fortíðinni sem hljóti að vera vitlaus eða veikur. Hvort sem það er raunin eða ekki þá deila því miður margir sjónarmiðum hans. Hans viðhorf eru meira ríkjandi en fólk virðist kveikja á. Eðlilega eru ekki margir jafn grímulausir í andúð sinni en sumir láta þó í þær skoðanir sínar skína í hálf-lokuðum facebook hópum, vinahópum, tiktok commentakerfum og athugasemdakerfum fréttamiðla.

Commentakerfið

Birgir Fannar er svo sannarlega ekki sá eini í heiminum með vondar og meiðandi skoðanir til kvenna, jafnréttis, femínisma eða mannréttinda. DV fjallaði um viðtalið við Birgi Fannar og í athugasemdakerfinu tók Árni Stefán grímulaust undir boðskap Birgis Fannars: „Helvíti gott hjá honum. Hverju orði sannara”. Helga Dögg tók óbeint undir með Birgi og sagðist aldrei hafa „skilið afhverju orðið [drusla] heillar konur, hvað þá að þær vilji kenna sig við orðið” og Huginn sá tilefni til að gagnrýna framkomu mína í þættinum „leikskólakrakkinn Þorsteinn að metast í viðtalinu […] vanþroskað og ljótt […] það þarf illkvittni til að reyna að smána mann með þessum hætti” en tók ekki fram að neitt væri athugavert við skoðanir viðmælanda míns. Vondu viðhorfin eru ekki heldur bara bundin við einstaka commentara í commentakerfinu.

Jafnréttissinnar

Ótal sinnum höfum við séð menn með hræðilegar skoðanir klappaða upp af öðrum, jafnvel hrósað fyrir hugrekkið að láta ekki „réttlætisriddara” vaða yfir sig. Láta ekki „femínistana” taka yfir sem „hafa engan húmor”. Uppklappið er samt oftar í dulbúningi vandlætingar á þeim sem benda á eða gagnrýna það sem ætti að vera öllum augljóst að er meiðandi og fordómafullt. Vandlætingar sem birtast t.d með því að hnýta í aðferðir femínista við gagnrýni sína, vega að persónu þeirra eða efast um málstaðinn sjálfan. Það er það sem er raunverulega hættulegt. Hversu margt fólk, margir menn, fá að fljóta hjá í svokölluðu „hlutleysi“ með óbeinni (eða beinni en dulinni) afstöðu sinni gegn jafnrétti. 

Ég sé ekkert nema blæbrigðamun á afstöðu Birgis Fannars og mörgum sem kalla sig jafnréttissinna. Sem sjá ekki hvernig feðraveldi, íhaldssamar hugmyndir um kynhlutverk og karlmennsku, þjóðernisrembingur og óbilandi trú á einstaklingsframtakinu er bein fyrirstaða jafnréttis. Undir þessum tvískinnungi og hugræna misræmi fá viðhorf eins og Birgis Fannars að rótfestast í felulitum mannvina og jafnréttissinna. Þar sem fólk sem bendir á vandann, bendir á misrétti og fordóma er talið öfgafull, dónalegt, húmorslaust eða ofbeldisfullt. Þar sem femínistar eru vandinn en allir eru svaka jafnréttissinnar.

Geiturnar

Á meðan mest áberandi karlkyns einstaklingarnir beita fyrir sig „ekki illa meintu” gríni og fordómum, gera lítið úr femínistum og frásögnum þolenda ofbeldis þá er augljóst hvað er eftirsóknavert og hvað ekki. Flottu og fyndnu útvarpsmennirnir, sniðugu og góðu Twitter-geiturnar, fótbolta-kings, tónlistarmennirnir og áhrifavaldarnir eiga meira sameiginlegt með Birgi Fannari en við viljum trúa. Þeir tala kannski ekki jafn grímulaust gegn jafnrétti en þeir gera okkur og mini-útgáfunum af sjálfum sér algjörlega ljóst að vera bara chill. Ekki vera með vesen, ekki vera svona PC, ekki vera femínistar eða allavega ekki „öfga” og hætta að „móðgast fyrir hönd annarra”. Leyfa hlutunum að slæda og vera bara með smá „húmor”. En grín getur meitt og við erum fyrir löngu komin með ógeð á að leyfa meiðandi viðhorfum bara að slæda. 

Völd og áhrif

Helsti munurinn á Birgi Fannari og geitunum og kóngunum á samfélagsmiðlum er hvernig þeim tekst (oftast) að dulbúa fyrirlitninguna sína og fordómana. Og, það sem er varhugavert og greinir geiturnar kannski helst frá Birgi Fannari, eru áhrifin. Áhrifin sem mest áberandi og eftirsóknarverðu áhrifavaldarnir, geitur og kings, hafa eru þau að megnið af ungum strákum, ungu kynslóðinni sem á að færa okkur jafnréttið sjálfkrafa, telur jafnréttinu náð, fordóma tilheyra fortíðinni og þar af leiðandi allar aðgerðir og gagnrýni óþarfa viðkvæmni eða öfgar. „Birgir Fannar” er töluvert nær okkur og áhrifameiri en sum okkar halda eða vilja trúa.

Skrifað af Þorsteini V. Einarssyni.

Read More
Thorsteinn V. Einarsson Thorsteinn V. Einarsson

„Snákagryfja femínisma og veganisma”

Birgir Fannar fór mikinn í athugasemdakerfi Karlmennskunnar á Facebook á dögunum þar sem hann lýsti vandlæti sínu á efnistökum miðilsins. Birgir skrifaði meðal annars: „Það er engin karlmenska hér eingöngu skipulögð eyðilegging á henni” og tók illa í það þegar honum var ekki svarað efnislega eða á jafn hranalegan hátt: „Ég myndi segja hver skar af þér eystun, en það er ekki móðgun í þínum eyrum þú værir vís til að skera þau af þér sjálfur og þó þú sért kanski með þau líkamlega, andlega séð ertu löngu búin að henda þeim í tunnuna ásamt stolti, dugnaði og hugrekki“, skrifaði Birgir Fannar meðal annars. 

Sjaldan, ef nokkurntíman, hafa samskipti í gegnum athugasemdakerfi fréttamiðla eða samfélagsmiðla leitt af sér vitræna niðurstöðu. Ég taldi því ekki gagn af því að svara Birgi efnislega en verandi sérstakur áhugamaður um andspyrnu gegn jafnrétti bauð ég honum að gera frekari grein fyrir sjónarmiðum sínum í hlaðvarpsþættinum Karlmennskan. Boðið þáði hann og sagðist tilbúinn til þess að „mæta í þessa snákagryfju femínisma og veganisma bara til þess að segja auglitis til auglitis hvað mér þykir um þessa óþverra stefnu þína sem lyktar af fégræðgi og áróðri einum saman“.

„Kvenlegir menn munu ekki erfa Guðs ríki“

Útgangspunktur viðtalsins var að draga fram viðhorf Birgis Fannars til jafnréttis og karlmennsku og rökstuðning hans fyrir þeim viðhorfum. Biblían, eða túlkun og skilningur Birgis Fannars á biblíunni, virtist þungamiðja í viðhorfum og skoðunum hans til hinna ýmsu mála þótt erfitt sé að finna þá tengingu. „Þeir menn sem alast upp með einstæðum mæðrum eru í stórhættu á að verða kvenlegir“, sagði Birgir Fannar meðal annars og sagði að kvenlegir menn myndu ekki erfa Guðs ríki. Hafði hann því miklar áhyggjur af því að Karlmennskan væri að kvengera drengi og karlmenn og bæla niður „eðli“ þeirra og karlmennsku. Fullyrti hann að föðurleysi drengja væri mikið vandamál, og í raun stórhættulegt því feður væru þeir einu sem kenndu drengjum að verða að mönnum. 

Birgi Fannari fannst ekki mikið til Druslugöngunnar koma og taldi hana „réttlæta lauslæti og framhjáhald. Reyna að mála eitthvað sem var slæmt sem gott. Það er innifalið í orðinu, drusla þýddi það einu sinni og þýðir það ennþá hjá fólki sem fylgir ekki femínisma“. Þá spurði hann mig: Hvaða hag hefur þú af því að styðja druslugönguna ef þú ert fjölskyldufaðir?“ og virtist engan áhuga hafa á að taka mark á þolendum ofbeldis né því sem Druslugangan stendur fyrir. Raunar hæddist hann að því að gerendur bæru einir ábyrgð á ofbeldi því hann taldi þolendur kalla það yfir sig. 

Þátturinn er tekinn upp í stúdíó Macland og er í boði Veganbúðarinnar og The Body Shop. 

Hættuleg orðræða

#43 Birgir Fannar.png

Unnur Gísladóttir framhaldsskólakennari, femínisti og vinkona mín hlustaði á viðtalið við Birgi Fannar áður en þátturinn var gefinn út og áttum við stutt samtal um viðtalið, sem fylgir í lok þáttar. „Það fengu örugglega margir hjartslátt við að hlusta á þetta“ sagði Unnur og játaði að hafa verið fegin þegar viðtalinu lauk. „Verandi kona að hlusta á þetta þá er galið hvað hann beitir ítrekað mikilli kvenfyrirlitningu í samtalinu“ og vísaði Unnur til umræðunnar um Druslugönguna, þungunarrof (sem Birgir talaði um sem barnamorð), karlmennsku, mæður og fjölskyldur. 

Þrátt fyrir að (vonandi) fáir deili öllum sjónarmiðum Birgis Fannars þá taldi ég rétt að birta viðtalið í því skini að veita innsýn í viðhorf einstaklings sem ekki eru til þess fallin að styðja við jafnrétti, mannvirðingu né mannréttindi. „Fólk þarf að heyra þessi sjónarmið af því við þurfum að bregðast við þessu, þessi viðhorf og orðræða er víða“ sagði Unnur og ég tek undir það því við sjáum að það sem áður var einungis orðræða í lokuðum hópum útnára internetsins (t.d. Incel) hefur komist inn í meginstraum orðræðu sumra karla og ungra drengja. Við getum ekki og megum ekki láta slíka orðræðu eiga sig, heldur verðum að spyrna við henni. 

(Skrifað af ÞVE)

Read More
Thorsteinn V. Einarsson Thorsteinn V. Einarsson

NO FUCKING WAY

„Ég er alveg hrædd við að viðurkenna að ég sé buguð í sumarfríi með börnunum mínum.“ segir Hulda Jónsdóttir Tölgyes sálfræðingur og móðir í samtali við makann sinn, mig, Þorstein V. Einarsson í 42. hlaðvarpsþætti Karlmennskunnar þar sem við gerum upp sumarfríið með börnunum okkar og ómeðvitaða ójafna skiptingu ábyrgðar í foreldrahlutverkinu. Ójöfn ábyrgð á heimilis- og fjölskyldulífi er eitt af því sem skapar og viðheldur misrétti sem nærð er af samfélagslegum hugmyndum um kynhlutverk. Rannsóknir hafa t.d. varpað ljósi á að það geti verið meiri vinna fyrir konu að eiga karlkyns maka heldur en að vera einstæð móðir. Með þessa vitneskju í huga og mikinn vilja til að deila ábyrgðinni jafnt ákváðum við að kryfja sumarfríið okkar hjóna með börnunum og hið ósýnilega mental load sem virðist nánast ómögulegt að skipta jafnt.


ÓSÝNILEGA MENTAL LOADIÐ

„Held að þetta snúist um hvað er að gerast í hausnum á mér og hvað er að gerast í hausnum á þér til dæmis þegar við erum heima. Hver forgangsröðunin okkar er. [...] Held að konur almennt hugsi öðruvísi en karlkyns makar þeirra um tímann, allt sem á eftir að gera og svoleiðis. [...] Ég geri t.d. aldrei ráð fyrir að ég geti verið með hugann í vinnunni þegar ég kem heim á meðan ég held að það flæði aðeins út fyrir línurnar hjá þér því ég er í raun búin að covera vaktina.“, segir Hulda í tilraun sinni til að útskýra fyrir mér hvernig ósýnilega mental loadið birtist. Þrátt fyrir mikinn vilja af minni hálfu, gegnsýrður upplýsingum og að horfa aldrei á fótbolta, spila ekki tölvuleiki eða annað álíka, tekst mér ekki að deila ábyrgð heimilisins jafnt með Huldu. 

Á staðnum en samt ekki

„Ég upplifi stundum eins og menn í kringum mig hagi sér eins og ég á það til að gera þegar ég fer með börnin heim til mömmu í heimsókn. Þá get ég aðeins sest niður, hún gefur mér kaffi og fer að leika við stelpuna okkar. Þá er hún á vaktinni og ég get aðeins chillað. [...] Pabbarnir eru oft á staðnum, en eru meira offline og ekki á vaktinni. Kannski á bakvakt ef mamman beinir barninu til þeirra.”, segir Huldu og vísar til þess hvernig ég á það til að zona út í símanum yfir morgunmatnum. Taka frívaktina og velta þannig, ómeðvitað, byrði á hana. Þrátt fyrir að telja mig meðvitaðan, ég sé bara rétt að kíkja og upplifi mig á staðnum þá er það ekki sameiginleg upplifun okkar. 

Þetta og fleira tengt ósýnilegu mental loadi ræðum við Hulda í 42. hlaðvarspþætti Karlmennskunnar. 

Hlustaðu á

Spotify https://spoti.fi/3lf0vrn

Podcasts https://apple.co/2VrtFbC 

Þátturinn er tekinn upp í stúdíó Macland og er í boði Veganbúðarinnar og The Body Shop.

Read More
Thorsteinn V. Einarsson Thorsteinn V. Einarsson

„Þar er alveg menning fyrir því að selja stelpur undir borðið.“

1.png

Ég var í neyslu í mörg ár áður en ég fer að nota vímuefni í æð og þá fer ég í allt annan heim. Veruleiki sem ég hafði aldrei kynnst áður. Þar er alveg menning fyrir því að selja stelpur undir borðið.“ segir Inga Hrönn Jónsdóttir úr skipulagsteymi Druslugöngunnar sem verður farin laugardaginn 24. júlí kl. 14.00 frá Hallgrímskirkju. Druslugangan er mótmæli gegn nauðgunarmenningu og því viðhorfi að það sé þolendum ofbeldis um að kenna að verða fyrir ofbeldi. Þá er gangan samstöðuviðburður með þolendum ofbeldis og í ár verður sérstök áhersla á valdaójafnvægi. „Ég fann svo sterkt hvað konur í neyslu hafa enga rödd. Þetta eru konur sem eru algjörlega jaðarsettar í samfélaginu og eiga ótrúlega erfitt með að ná fram réttlæti. [...] Þessi týpíska átta til fjögur vinnandi kona á erfitt með að fara í gegnum dómskerfið en að upplifa þetta sem fíkill, hvernig lögreglan lítur á okkur sem skítinn undir skónum sínum, gerði mig svo ótrúlega reiða og mig langar að berjast fyrir að því að vera rödd þessara kvenna“ segir Inga Hrönn en hún verður með ræðu í Druslugöngunni þar sem hún mun koma inn á hvernig jaðarsetning og valdaójafnvægi gerir fólk berskjaldaðra fyrir ofbeldi.

Manni er bara sagt að vera ekki með þetta væl

Inga Hrönn upplifði valdaójafnvægi á eigin skinni í neyslu og það hvernig ofbeldi getur fengið að þrífast án þess að það þyki tiltökumál. Hún segir önnur lögmál gilda í samfélagi þeirra sem nota vímuefni um æð . „Segi ekki allir, en myndi segja 95% af karlmönnum finnst ekkert mál að káfa og biðja um að ríða sér fyrir einn skammt. Og hef maður reynir að segja eitthvað þá er manni bara sagt að vera ekki með þetta væl.“ Inga Hrönn vill vera rödd fyrir konur sem hafa ekki rödd meðal annars vegna neyslu. Hún telur það þó geta reynst erfitt að láta byltingar ná til þess hóps sem neytir vímuefna um æð. „Prinsippin mín skekktust og ég fór að gera hluti sem ég myndi aldrei gera í dag. Á þeim tímapunkti sá ég ekkert að því. En maður er allan daginn að deyfa sig til að finna ekki neitt.“ Hún segir viðhorf sem samþykkir ofbeldi rótgróið í þennan heim og erfitt sé að hrófla við því. 

Situr uppi með þetta edrú

Fyrir konur sem hafa þurft að þola ofbeldi í neyslu þar sem prinsippin hafa verið skekkt getur reynst erfitt að verða edrú. „Þegar þú verður edrú, þá siturðu uppi með þetta. Þá ferðu að fá draumana og flassbakkið“. Þá segist Inga Hrönn finna vel fyrir fordómum í sinn garð, vegna reynslu hennar af vímuefnaneyslu, þar sem fólk telji sig vita betur hvernig hún eigi að haga sínu lífi. „Ég finn oft fyrir því að fólk lítur niður á mig. Fólki finnist þau þurfa að segja mér hvernig ég eigi að haga mínu lífi og hvernig sé best að ná bata.“ segir Inga Hrönn og tekur fram að hún sé búin að vera edrú í nokkurn tíma núna og hafi fundið leið sem henti henni vel.

Hlustaðu á 41. hlaðvarpsþátt Karlmennskunnar en ásamt Ingu Hrönn mætti Karitas M. Bjarkadóttir úr skipulagsteymi Druslugöngunnar. Druslugangan, kynferðisofbeldi, berskjölduð staða kvenna í vímuefnaneyslu gagnvart ofbeldi, meiðandi viðhorf, fordómar, andspyrna og byltingar eru umfjöllunarefni 41. hlaðvarpsþáttar Karlmennskunnar.

P.S. Inga Hrönn skrifaði áhrifaríka grein í Flóru sem þú getur lesið hér: https://flora-utgafa.is/7-utgafa/tilverurettur/ 



Read More
Thorsteinn V. Einarsson Thorsteinn V. Einarsson

Nokkrir vinsælir hlaðvarpsþættir

Ef þú hefur áhuga á innihaldsríku, upplýsandi og málefnalegu hlaðvarpi um jafnréttismál ætti hlaðvarpið Karlmennskan að höfða til þín.

👉Viðmælendur búa fyrst og fremst yfir sérþekkingu, menntun eða reynslu sem liggur til grundvallar málefnalegrar umræðu. Markmið hlaðvarpsins er nefnilega ekki að útvarpa umdeildum og meiðandi skoðunum þekktra einstaklinga né skapa villandi fyrirsagnir. Heldur bæta við eða pota í samfélagslega umræðu og orðræðu.

🤩Nokkur dæmi um þætti sem eru nú þegar aðgengilegir á Spotify og Podcasts:

#39 „Hvað eigum við að öskra þetta lengi?!” spyrja fulltrúar ÖFGA sem ætla sér að fella feðraveldið. Ólöf Tara og Hulda Hrund ræða kynferðisofbeldi, mengandi og styðjandi kvenleika og velta fyrir sér umhverfi sem virðist ekki vilja að talað sé um gerendur og ofbeldi.

#34 „Fimm kílóum frá því að vera hamingjusamur” er um reynsluheim tveggja karla af fitufordómum og hvernig þeir lituðu sjálfsmynd þeirra og líf.

#27 „Ónýtasta ráðið er að fara ekki ósátt að sofa” með Ólafi Grétari fjölskyldu- og hjónaráðgjafa um foreldrahlutverkið, sambönd og ábyrgð feðra í uppeldi.

#14 „Tiktok og gamer menningin” með Dagnýju Höllu sem veitir okkur innsýn í eitraða menningu tölvuleikjanna, algorithmann á Tiktok og viðmótið sem ungir strákar sýna stúlkum í tölvuleikjaheiminum.

#9 „Mental load: hjónin Hulda og Þorsteinn” þætti sem hefur lýst sem tragikómísku realískum listgjörningi en er bara samtal hjóna um ójafna skiptingu ábyrgðar á heimilis- og fjölskylduhaldi.

#4 „Nafnlausu skrímslin" um nauðgunarmenningu, skrímslavæðingu og gerendameðvirkni og hvort mögulegt sé að útrýma ofbeldi.

📻Þú finnur hlaðvarpið karlmennskan á

Spotify: https://spoti.fi/2URs2DO

Podcasts: https://apple.co/3wHLXmf

Það er Macland, Veganbúðin og The Body Shop sem bjóða upp á hlaðvarpið Karlmennskan.

Read More
Thorsteinn V. Einarsson Thorsteinn V. Einarsson

„Hvað eigum við að öskra þetta lengi!?“

Nýstofnaður aðgerðarhópur, ÖFGAR, hefur blásið kröftugu lífi í seinni bylgju eða aðra bylgju metoo með því að birta nafnlausar frásagnir kvenna og stúlkna af áreitni og ofbeldi ónafngreinds þekkts tónlistarmanns, sem fjölmiðlar hafa tengt við Ingó Veðurguð. Hópurinn Öfgar og AGN (aðgerðahópur gegn nauðgunarmenningu) sendu sömuleiðis frá sér yfirlýsingu með áskorun um að Ingó Veðurguð yrði afbókaður til að stýra brekkusöng á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Þjóðhátíðarnefnd tók sér nokkra daga til umhugsunar og sendi síðan yfirlýsingu í byrjun vikunnar þar sem tilkynnt var að Ingó myndi ekki stýra brekkusöngnum. Viðbrögð fólks hafa ekki látið á sér standa, stofnað hefur verið til undirskriftarlista um að fá Ingó aftur inn í grunnskóla með böll, gæslustjóri Þjóðhátíðar hefur sagt sig frá störfum sínum í mótmælaskyni og mörg hafa skrifað Ingó stuðningsyfirlýsingar í athugasemdakerfum fréttamiðlanna.

„Öfga feministar hirða mannorðið af mönnum“ 

Þessa millifyrirsögn á kona yfir miðjum aldri og hafði fengið 28 læk fyrir á nokkrum klukkustundum. Tilefnið var fréttaumfjöllun um að Ingó hefði verið afbókaður á Þjóðhátið eftir að fjölmiðlar höfðu tengt nafnlausu frásagnirnar við hann. „Það er dapurlegt að þjóðhátiðarnefnd hafi fallið fyrir dómstóli götunar, að láta nafnlausar flökkusögur ráða gjörðum sínum, sýnir ótrúlegan aumingjaskap og meðvirkni með einhverju sem engin veit hvað er.“ skrifaði karlmaður á miðjum aldri, við sama tilefni, og hafði hlotið fyrir það 56 læk á tveimur klukkustundum. „Gróa á leiti, engar sannanir, bara blaður á netinu, þetta er orðið tiskufyrirbæri, ekkert mál að búa til Facebook account og pósta sögu til að búa til eitthvað, þetta cancel culture dæmi er orðið að tiskubylgju í heiminum.“ skrifaði enn annar og hafði hlotið tug læka á tveimur klukkustundum. Öfga femínistar, dómstóll götunnar, gróa á leiti, tilbúnar sögur og cancel culture eru hugtök sem hafa verið ansi áberandi. Dómstóll götunnar virðist því vera búinn að dæma frásagnir kvenna af ofbeldi tilbúning öfgafemínista sem ætli sér að útskúfa saklausum mönnum.


ÖFGAR

Ólöf Tara og Hulda Hrund, meðlimir ÖFGA, voru viðmælendur í nýjasta hlaðvarpsþætti Karlmennskunnar og ræddu meðal annars viðbrögð fólks við frásögnum kvenna af ofbeldi. „Ég get alveg spurt einhvern gæja, mundir þú vilja að dóttur þinni yrði nauðgað? Nei, að sjálfsögðu ekki. En mundi hann taka afstöðu með öðrum þolanda ef hann væri ekki tengdur honum? Eflaust ekki. [...] Þetta þarf alltaf að snerta okkur svo djúpt svo við getum trúað og tekið afstöðu. Hvað eigum við að öskra þetta lengi?!“, segir Ólöf Tara og vísar þar til þess hversu gjarnt fólk er að taka afstöðu gegn þolendum en taka frekar upp hanskann fyrir meintum gerendum. Hulda Hrund segir að umræða um mannorðsmorð og cancel culture sé í raun þversögn, því það eru á endanum þolendur sem hljóta skaða og útskúfun fyrir að tjá sig. „Fólk segir að við séum að stunda mannorðsmorð. Hvaða heilhveitis mannorðsmorð er verið að stunda? Var það mannorðsmorð biskupsins eða lögreglumannsins eða ökukennarans eða körfuboltamannsins eða fótboltamannsins? Hvaða mannorðsmorð erum við að tala um? [...] endaði með því að hún [þolandinn] þurfti að flytja úr landi eftir að hún kom fram“, segir Hulda Hrund og vísar til mála þar sem dómar hafa fallið með sýnilega takmörkuðum afleiðingum fyrir gerendur, þrátt fyrir dóma.


„Ekki nauðga!“

1.png

„Af hverju er það á okkar ábyrgð að okkur sé ekki nauðgað? [...] Ekki vera svona klædd, ekki drekka of mikið, ekki fara ein á klósettið, taktu alltaf vinkonu þína með þér, taktu helst einhvern gaur með þér sem er vinur þinn í hópnum, ekki vera ein. Í staðinn fyrir bara: ekki nauðga!“  segir Hulda Hrund og Ólöf Tara bætir við „Ef þú ert eitthvað hræddur um að það verði logið upp á þig. Ekki vera fullur niðri í miðbæ. Ekki vera einn úti á kvöldin. Passaðu þig bara, passaðu drykkinn þinn. Hafðu alltaf félaga þinn með þér til að passa upp á þig. Ef þú ætlar að vera hræddur við þetta, þá skalt þú bara brynja þig fyrir þessu.“

Hlustaðu á 39. hlaðvarpsþátt Karlmennskunnar þar sem Hulda Hrund og Ólöf Tara, fulltrúar ÖFGA, segja frá markmiði og tilurð hópsins, ræða gerendameðvirkni og nauðgunarmenningu, pota í algenga orðræðu gegn þolendum m.a. í athugasemdakerfum fjölmiðla og hugtökin styðjandi og mengandi kvenleiki eru tekin fyrir.


Read More
Thorsteinn V. Einarsson Thorsteinn V. Einarsson

Guð gefi mér æðruleysi

AA samtökin, fíknivandi og lausn við fíkn er umfjöllunarefni nýjasta hlaðvarpsþáttar Karlmennskunnar. Viðmælendur eru Kristín I. Pálsdóttir talskona og framkvæmdastjóri Rótarinnar, Hörður Ágústsson fyrrverandi þrotamaður og meðlimur AA samtakanna og „Kalli“ , sem hlýtur nafnleynd, núverandi meðlimur í AA samtökunun. Telja þau AA samtökin bera þess merki að vera sprottin upp af kristinni bræðralagshreyfingu karla á fyrrihluta 20. aldar og þá telur Kristín 12 spora kerfið ekki henta fólki sem hafi glímt við fíkn frá unga aldri.  Telur Kristín líklegra að það sé að „glíma við annan vanda, geðrænan vanda, þroskaraskanir, tilfinningavanda, orðið fyrir ofbeldi eða vanrækslu“ og bætir við að „það er kannski ekkert valdeflandi þegar það er sagt við mann þegar maður er tvítugur að maður sé með ólæknandi heilasjúkdóm“.

Heilasjúkdómurinn og Guð

AA samtökin er félagsskapur sem byggir á 12 sporum sem leið til bata við alkóhólisma. Alkóhólismi er þar talinn vera ólæknandi heilasjúkdómur sem byggir á líkamlegu ofnæmi og þráhyggju gagnvart hugbreytandi efnum. Lausnin, sem liggur í 12 sporunum, byggir á persónulegri uppgjöf, uppgjöri og því að horfast í augu við eigin bresti og gjörðir. Þá er aðalamkarkmiðið að finna æðri mátt, lúta hans vilja og hjálpa öðrum til þess sama. „Þetta er trúarleg lækning á fíkn. Það samræmist rosalega illa nútíma læknisfræði, sérstaklega ef við ætlum að miða við að þetta sé ólæknandi heilasjúkdómur. Það er til dæmis enginn heila- og taugasérfræðingur að vinna inni í meðferðarkerfinu. Það eru svo margir þversagnir“ segir Kristín I. Pálsdóttir talskona og framkvæmdastjóri Rótarinnar, sem er félag um velferð og lífsgæði kvenna og er málsvari kvenna sem eiga sér sögu um áföll og/eða vímuefnavanda. Rótin hefur gagnrýnt SÁÁ m.a. fyrir að afneita hinu félagslega við þróun fíkniferilsins, byggja nánast eingöngu á líffræðilegri nálgun og beina síðan fólki í AA samtökin. 

Komst á leiðarenda

Hörður Ágústsson fór í meðferð og var í AA samtökunum í sex ár. „Ég komst á leiðarenda fyrir mig sjálfan í AA samtökunum [...] mér fannst vanta eitthvað eftir sex ára edrúmennsku. [...] Fannst vanta vöxt og fór að pæla hvenær mér færi að líða eðlilega, eins og venjulegu fólki [...] Fallið vofði alltaf yfir mér“. Hörður segist hafa fundið fyrir betri og stöðugri andlegri líðan eftir að hafa hætt fundasókn og leitað til sálfræðings „Ég held ég hefði getað flýtt mínum bata mjög mikið, skorið nokkur ár af þroti úr lífi barnanna minna og konu ef mér hefði verið bent á sálfræðing strax“. 

1.PNG

Kalli er þriðji viðmælandinn og er undir dulnefni þar sem hann er meðlimur í AA samtökunum. „Ég verð edrú tvítugur og næ að vera edrú í sex ár en ég lifði ekki beint lífinu í sex ár. Ég var stöðugt hræddur og óttasleginn um það að ég myndi fara aftur að drekka. Ég lifði lífinu þannig að ég var ekki að gera nóg og ef einhver annar var að lesa meira í AA bókinni að þá væri ég bara á leiðinni á fyllerí.“, segir Kalli og bætir við „þessi bók eru AA samtökin, hún er heilagur sannleikur og hana má ekki véfengja“. Kalli segist hafa lært og þroskað síðustu árin og því finna sig ágætlega innan AA samtakanna.

AA fyrir alla en samt bara suma

Öll telja þau félagsskapurinn í AA vel geta hjálpað fólki þó tvö af þremur viðmælendum hafi ekki fundið sig innan samtakanna. Hafa þau þó efasemdir um kynjablandaða AA fundi og ekki sé vænlegt að alhæfa um allt fólk og taka þurfi til greina ólíka reynslu fólks í bataferlinu. „Ekki fókusa á of mikið á hvað þú ert að nota, hversu lengi heldur hvers vegna þú ert að nota. Af hverju þú ert á þessum stað í dag. Það er einhver ástæða fyrir því. Ekki láta neinn segja við þig að þú sért ekki með nógu mikil áföll, þetta er allt einstaklingsbundið. Ég held ég hefði getað flýtt mínum bata mjög mikið, skorið nokkur ár af þroti úr lífi barnanna minna og konu ef mér hefði verið bent á sálfræðing strax“ segir Hörður og Kalli, sem er á fertugsaldri, tekur undir „ég hefði verið til í það bara tvítugur að einhver hefði sagt, þú þarft að fara til geðlæknis, sálfræðings eða fá áfallahjálp“.

Kristín telur það hreinlega geta verið hættulegt fyrir þolendur ofbeldis að fara í AA samtökin, gefa frá sér allt vald og taka ábyrgð á því sem hefur komið fyrir það. „Margar konur koma inn með mikla ofbeldissögu og síðan eiga þær að byrja á því að gefa frá sér allt vald. Það er mjög hættulegt. Það er ekki það sem þessar konur þurfa. [...] Þegar þú ert að láta þolendur axla svona mikla ábyrgð í sporavinnu [...] jafnvel að fara til ofbeldismannanna og játa sinn hlut, gerist ekki ófemínískara og getur verið mjög skaðlegt ferli.“ Þótt Kristín telji sumt ágætt við AA samtökin telur hún þó mikilvægt að fólk passi hvert það leiti sér hjálpar og leiti helst til fólks með leyfi frá landlækni t.d. geðlækna og sálfræðinga.

Hlustaðu á 38. hlaðvarpsþátt Karlmennskunnar „Guð gefi mér æðruleysi“

Viðmælendur: Hörður Ágústsson, Kalli (dulnefni) og Kristín I. Pálsdóttir.

Umsjón: Þorsteinn V. Einarsson

Intro/outro: ON (instrumental) - Jói P. og Króli

Þátturinn er í boði Macland, Veganbúðarinnar og The Body Shop.


Read More
Thorsteinn V. Einarsson Thorsteinn V. Einarsson

„Við verðum að afbyggja það að hvít karlmennska sé hlutleysi“

„Við höfum bara ákveðið að hvítir karlkyns líkamar og þeirra vitund sé hlutlaus og það er marker sem við verðum að afbyggja, það að hvít karlmennska sé hlutleysi“ segir Anna Marsý dagskrárgerðamaður hjá RÚV í samtali við Andra Frey Viðarsson dagskrárgerðamann hjá RÚV og Þorstein V. Einarsson.

#37 Hlutleysi Andri og Anna Marsý.png

Anna Marsý ætlaði að verða formaður stúdentaráðs og ritstjóri hjá forlagi, var virk í stúdentapólitík og hagsmunabaráttu stúdenta en heillaðist af fjölmiðlun, poppmenningu og „intersectional“ femínisma. Mónitor, mbl, nám í audio journalism í Bandaríkjunum, fann þar áhugasviðið sitt hljóðmiðlun og er nú í Lestinni á Rás 1. Andri Freyr byrjaði 1998 með útvarpsþáttinn Karate á X-inu og svo varð hann Freysi og þá umsjónarmaður Capone, Litlu hafmeyjunnar, Virkra morgna og núna er hann í síðdegisútvarpinu á Rás 2. Mögulega á Andri Freyr fyrsta sjálfsviðtal fjölmiðlunar þar sem hann tók viðtal við sjálfan sig til að villa um fyrir fólki þegar hann var kominn upp við vegg með karakterinn Freysa. Það er einmitt eitt sjálfsviðtal sem varð til umfjöllunar sem leiddi umræðuna að valdi fjölmiðla.

Sjálfsviðtal misbeiting valds eða eðlileg fjölmiðlun?

Fjölmiðlar eru gjarnan kallaðir fjórða valdið á eftir eða samhliða dóms-, framkvæmda- og löggjafarvaldinu og getur efnisval dagskrárgerðafólks eða ritstjórnar haft töluverð áhrif í lýðræðissamfélagi. Í lögum um fjölmiðla er fjölmiðill skilgreindur sem „hvers konar miðill sem með reglubundnum hætti miðlar til almennings efni er lýtur ritstjórn“ og með ritstjórn er átt við þann sem ber „ábyrgð á efni og efnisvali og ákvarðar hvernig það er skipulagt“ (https://www.althingi.is/lagas/nuna/2011038.html). Samkvæmt þessu er hlaðvarp fjölmiðill og umsjónaraðilinn þá ritstjóri en út frá því sjónarhorni velti Anna Marsý fyrir sér fjölmiðlunarlandslaginu í kjölfar sjálfsviðtals Sölva Tryggvasonar. „Almennt virtist umræðan snúast á sveif með honum, að hann væri fórnarlamb í sínum aðstæðum og það var ekki kominn fram neinn kærandi eða þolandi“. Taldi Anna Marsý tímaspursmál hvenær þolandi eða þolendur stígu fram, vegna tengsla sinna við „undirheima“ kvenna, og réðst því í pistlagerð um sjálfsviðtal ritstjórans Sölva Tryggvasonar. „Pistillinn snerist um þessa þróun hvernig djúp persónuleg viðtöl þar sem fólk berskjaldar sig gjörsamlega hafa verið að verða fyrirferðameiri á fjölmiðlamarkaði og hvernig þau í rauninni halda mörgum fjölmiðlum á floti. [...] Aukin einkavæðing viðtalsins tengist kannski aukinni einkavæðingu fjölmiðla og  leiðir það síðan áfram í hvernig Sölvi er birtingamynd einkavæðingar viðtalsins þar sem hann tók djúp persónuleg viðtöl sem einhvernveginn snerust líka alltaf aðeins um hans eigin persónu. Og auðvitað kórónaðist þarna í lokin þegar hann tók viðtal við sjálfan sig“

Þá veltir Anna Marsý því upp hvaða þýðingu það hefur þegar fjölmiðlafólk tekur viðtal við sig sjálft og sérstaklega um álitamál: „Fólk gleymir því að hlaðvarp og fylgið sem þeim fylgja er vald. Við myndum ekki sætta okkur við að Helgi Seljan tæki viðtal við sjálfan sig í Kastljósinu. Af hverju er það svona eðlilegt [...] og hvers vegna skyldum við ekki vera skeptísk hvernig hann [Sölvi] beitir þessu valdi?“.

Það er ekkert til sem heitir hlutleysi

„Helgi Seljan, æskuvinur minn er búinn að vera mikið í umræðunni út af stóru máli [...] búið að vera erfitt að vera hlutlaus“ segir Andri Freyr og lýsir því hvernig það getur verið flókið að hafa ekki skoðanir sem fjölmiðlamaður, vera hlutlaus og fjalla ekki um málefni sem tengjast manni persónulega á jafn litlu landi og Íslandi. „Það er ekkert til sem heitir hlutleysi. Ég er kona, ég lifi í mínum pólitíska líkama og allir líkamar eru pólitískir. Við höfum bara ákveðið að hvítir karlkyns líkamar og þeirra vitund sé hlutlaus og það er marker sem við verðum að afbyggja, það að hvít karlmennska sé hlutleysi“ segir Anna Marsý og bendir á að það sé nauðsynlegt að líða pínu óþægilega og vera sjálfsgagnrýnin.

Er ég kannski bara karlremba?

„Mér líður stundum eins og ég sé á jarðsprengjusvæði [...] maður er alltaf að passa sig, og maður veit ekki alveg á hverju maður er að passa sig. Maður vill alltaf vera maður sjálfur, svo er maður stundum bíddu er ég, er ég kannski bara karlremba?“ segir Andri Freyr þegar hann er spurður hvort honum finnist umræða um karlmennsku og jafnréttismál óþægileg. Segist hann vera jafnvel stressaðri við að segja eitthvað vitlaust þegar hann tekur viðtal við Hjálmar á Stígamótum en Ólaf Ragnar Grímsson þáverandi forseta. Anna Marsý segist kannast við þetta líka en í samhengi við málefni þeldökks fólks og er hrædd um að klúðra því eða segja eitthvað vitlaust. „Okkur á að líða smá óþægilega og það á að vera allt í lagi“ segir Anna Marsý „því annars er maður að klúðra einhverju“.

1.png

Þáttur númer 37 í hlaðvarpinu Karlmennskan er ekki um pólitískar skoðanir dagskrárgerðafólks á RÚV heldur um fjölmiðlun, „hlutleysi“ og vald frá sjónarhorni og reynslu Andra Freys Viðarssonar og Önnu Marsibil Clausen.

Umsjón: Þorsteinn V. Einarsson

Intro/outro: ON (instrumental) - Jói P. og Króli

Þátturinn var tekinn upp í stúdíó Macland og er í boði Veganbúðarinnar og The Body Shop.

Read More